Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Aflýsti flokksþingi Repúblikana í Flórída

epa08563313 US President Donald J. Trump speaks about the government's response to the coronavirus pandemic during a news conference at the White House in Washington, DC, USA, 23 July 2020.  EPA-EFE/Yuri Gripas / POOL
Trump fer yfir stöðuna og kynnir aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19. Eins og ráða má af kortinu fyrir aftan hann er ástandið óvíða verra en í Flórída. Mynd: EPA-EFE - ABACA POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, aflýsti í gær fyrirhuguðu flokksþingi Repúblikana í Jacksonville í Flórída, þar sem ætlunin var að útnefna hann formlega sem forsetaefni flokksins. Forsetinn greindi frá þessu á fréttamannafundi í Hvíta húsinu og sagði þetta ekki rétta tímann fyrir „stórt og fjölmenn þing." Vísaði hann þar til kórónaveirufaraldursins sem geisar enn af miklum þunga í Bandaríkjunum og óvíða heitar en í Flórída.

Flutt til Flórída vegna COVID-19

Til stóð að halda flokksþingið í Jacksonville dagana 24. - 27. ágúst. Upphaflega átti formleg tilnefning að fara fram á landsþingi flokksins í Charlotte í Norður-Karólínu þessa sömu daga, en þingið var flutt til Flórída þegar ríkisstjóri Norður-Karólínu herti á samkomubanni vegna farsóttarinnar.

Fógetinn í Jacksonville tilkynnti fyrr í þessari viku að í ljósi mikillar útbreiðslu kórónaveirunnar væri borgin ekki rétti staðurinn fyrir svo fjölmenna samkomu sem flokksþingið er.

Öryggið á oddinn

Trump sagði á blaðamannafundinum að öryggi fundargesta og starfsfólks hefði verið honum efst í huga þegar hann ákvað að blása samkomuna af. „Við búum í breyttum heimi og munum gera það eitthvað áfram," sagði hann og sagðist ekki hafa viljað stefna tugum þúsunda í hættu. „Við vildum ekki taka neina áhættu," sagði Trump, „Við verðum að halda vöku okkar, við þurfum að fara varlega og við þurfum að sýna gott fordæmi."

Aftur til Charlotte

Tilnefning Trumps sem forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins mun fara fram í Charlotte-borg, eins og ætlunin var þar til hert var á samkomubanninu í Norður-Karólínu. Athöfnin fer fram hinn 24. ágúst en verður mun fámennari og einfaldari í sniðum en til stóð.