
Yfir 200 umsagnir bárust um stjórnarskrárfrumvarpið
Skömmu fyrir klukkan sex í gærkvöldi höfðu um 150 umsóknir borist og fjölgaði því umsögnum verulega í gærkvöldi.
Nokkrar athugasemdir eru þó einnig gerðar við tímalengdina sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einstaklingur geti gengt embætti forseta, sem er 12 ár.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við fréttastofu fyrr í mánuðinum að ekki komi eingöngu til greina að hámarka setu í forsetaembætti við tólf ár líkt og lagt er til með frumvarpinu. Aðalatriðið með frumvarpinu nú sé að fá svör við hvort fólk sé sammála því að tímamörk séu sett.
Skuldbinda sig ekki til að leggja frumvarpið fram
Rætt var við þá Helga Hrafn Gunnarsson, þingmann Pírata, og Ólaf Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi.
Sagði Ólafur frumvarpið ekki vera róttækt, en að tillögurnar væru þó flestar til bóta. Fráleitt sé þó að ekki sé hróflað við 21. grein stjórnarskrárinnar um framsal valds.
Helgi Hrafn Gunnarson, þingmaður Pírata, sagði hins vegar lykilatriði að fyrirvari sé í samráðsgáttinni um að formenn skuldbindi sig ekki til að leggja málið fram á Alþingi. „Ástæðan er sú að við höfum ekki náð saman um ýmis atriði og í tilfelli okkar Pírata það grundvallaratriði hver er stjórnarskrárgjafinn. Við viljum meina að það sé þjóðin og það eigi að grundvalla þetta starf á frumvarpi stjórnlagaráðs,“ sagði hann.
„Það er áhugavert við þetta frumvarp að það eru sett setumörk á forseta, sem er þó alla vega að nafninu til frekar valdalítið embætti, en hvar er ákvæðið um setutakmörk ráðherra?“
Ekki hreyft við deiluatriðum
Skúli Magnússon héraðsdómari og dósent sem var fenginn til að semja frumvarpið í samráði við formenn flokkanna sagði í samtali við RÚV eftir frumvarpið var birt á samráðsgáttinni að það væri unnið á grundvelli sáttar en ekki sundrungar.
„Við vitum að á síðustu árum hafa tillögur um breytingar stjórnarskrá strandað fyrst og fremst á pólitískri sundrung, eða skorti á samstöðu,“ sagði Skúli.
Frumvarpið beri þess líka merki að vera málamiðlun.
„Þarna er reynt að finna flöt sem flestir geta sætt sig við, þannig að þetta er ekki óskalisti held ég eins eða neins, þetta er að minnsta kosti ekki minn óskalisti,“ sagði hann.
Með frumvarpinu sé ekki verið að hreyfa mikið við grundvallaratriðum eða þeim hlutum stjórnarskrárinnar sem deilt hefur verið um.
Fréttin hefur verið uppfærð.