Vill halda í álverið en horfir líka á stóra samhengið

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Iðnaðarráðherra segir álverið í Straumsvík mikilvægt fyrirtæki sem vont væri að missa. Það sé þó nauðsynlegt að líta til stóra samhengisins. Móðurfélagið hafi þegar lokað 7 af 8 álverum sínum í Evrópu. Óljóst er hvort álverið þraukar þar til kvörtun sem það lagði fram í gær fæst afgreidd hjá Samkeppniseftirlitinu.

Þung staða og lokun hugsanlega yfirvofandi

Staða álversins í Straumsvík hefur lengi verið þung og móðurfélagið, Rio Tinto, er ósátt við raforkuverðið sem Ísal greiðir Landsvirkjun. Í lok janúar ákváðu stjórnendur þess að minnka framleiðslu álversins um 15%. Um miðjan febrúar tilkynnti félagið að reksturinn yrði endurskoðaður vegna mikils tapreksturs, til greina kæmi að minnka framleiðslu enn frekar eða loka álverinu varanlega. Starfsmenn voru uggandi um stöðu sína.

Í gær lagði Rio Tinto svo fram formlega kvörtun til Samkeppniseftirlitsins. Það er mat félagsins að Landsvirkjun mismuni álfyrirtækjunum þremur og misnoti markaðsráðandi stöðu sína. 

Kæran kom ráðherra á óvart

Þórdís Kolbrún segist ekki hafa búist við þessu útspili Rio Tinto þar sem samtali milli Landsvirkjunar og Rio Tinto sé enn ólokið. „Þess vegna má kannski segja að það hafi komið á óvart að fyrirtækið hafi farið þessa leið á þessum tímapunkti en það er auðvitað fyritækisins og Landsvirkjunar að svara því.“ 

Sjá einnig: Kvörtun Rio Tinto kom Landsvirkjun á óvart

Evrópa að verða undir

 

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Álverið í Straumsvík.

Þórdís Kolbrún segir stjórnvöld hafa fylgst vel með þróun mála, þó ríkisstjórnin hafi ekki beina aðkomu að samtalinu. Álverið í Straumsvík er efnahagslega mikilvægt en er það ríkisstjórninni mikið kappsmál að halda í það? Þórdís svarar því til að Ísal sé mjög mikilvægt fyrirtæki og einn verðmætasti viðskiptavinur Landsvirkjunar. „Það er alveg skýrt að við viljum vera samkeppnishæf þegar kemur að þessari tegund starfsemi en stóra samhengið er það að Rio Tinto hefur lokað sjö af átta álverum í Evrópu, öllum nema Ísal og auðvitað verður að horfa á það í því samhengi. Staðreyndin er einfaldlega sú að álframleiðsla hefur í ofboðslega miklum mæli flust til Kína þar sem mengunin er miklu meiri en menn keppa á öðrum grunni. Evrópu er erfitt að keppa við það.“ Hún segir að þetta sé staðan. „Spurningin er þá hvað getum við á Íslandi gert í því? Hvað getur Evrópa gert í því og hvað finnst okkur um að framleiðslan færist þangað?“ spyr Þórdís Kolbrún. 

Hún bendir á að gerð sé arðsemiskrafa til Landsvirkjunar, ekki komi til greina að selja álverinu raforku án þess að hagnast á því. 

Segir bagalegt að geta ekki rætt samningana

Þórdís Kolbrún segist ekki geta tekið afstöðu til þess hvort orkuverðið sé ósanngjarnt, eins og Rio Tinto heldur fram, þó vissulega hafi horfur breyst frá því samningurinn var gerður fyrir áratug. 

Trúnaður ríkir um raforkusamninginn, Landsvirkjun vill aflétta trúnaðinum en það vill fyrirtækið ekki nema trúnaði verði aflétt af öllum samningum Landsvirkjunar þannig að gagnsæi sé tryggt og hægt að bera saman verð. Þórdís segir leyndina yfir efni samningsins bagalega, hún hafi lengi verið þeirrar skoðunar. „Það er mjög erfitt að taka vitræna umræðu um staðreyndir máls þegar samningurinn og upplýsingar um hann liggja ekki fyrir, raforkuverðið er eitt en það eru önnur ákvæði líka sem skipta miklu máli og varpa ljósi á samkeppnisstöðuna.“

Óljóst hvort álverið þraukar þar til niðurstaða fæst

Það kann að líða langur tími þar til Samkeppniseftirlitið kveður upp úrskurð sín. Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, segir fyrirtækið gera sér grein fyrir meðferð málsins hjá Samkeppnisyfirvöldum geti tekið langan tíma og sé í nokkrum skrefum, jafnvel nokkur ár. Hann segist ekkert geta sagt til um hvort álverið verði starfrækt þar til niðurstaða fæst.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Bjarni Már Gylfason

Snúist ekki um heimsfaraldur eða sveiflur

Heimsfaraldurinn kom illa við áliðnaðinn, meðal annars vegna þess að bílaframleiðsla stöðvaðist. Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir útspil Rio Tinto nú ekki tengjast heimsfaraldrinum eða markaðsstöðunni. Fyrirtækið hafi sett málið á dagskrá áður en veirufaraldurinn kom upp. Markaðir sveiflist alltaf og staðan sé erfið núna en fyrirtækið hafi lýst því yfir að orkuverðið sem Landsvirkjun býður sé ekki sjálfbært til lengri tíma litið og það sé alvarlegt mál. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi