Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Útilokar ekki lokun fleiri kínverskra ræðisskrifstofa

23.07.2020 - 02:35
epa08561538 US President Donald J. Trump speaks during a news conference at the White House in Washington, DC, USA, 22 July 2020. President Trump addressed the coronavirus pandemic, the 2020 presidential election, and a new anti-crime initiative called Operation Legend.  EPA-EFE/SARAH SILBIGER / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Bandaríkjaforseti útilokar ekki lokun fleiri kínverskra sendiskrifstofa í Bandaríkjunum og formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar segir skrifstofuna í Houston hafa verið miðstöð kínverskrar njósnastarfsemi í landinu.

Segir kínverskan hugverkaþjófnað kosta hundruð þúsunda starfa

Stirt samband stjórnvalda í Washington og Peking stirðnaði enn í gær, þriðjudag, þegar Bandaríkjastjórn fyrirskipaði lokun kínversku ræðismannsskrifstofunnar í Houston í Texas innan þriggja sólarhringa. Mike Pompeo, utanríkisráðherra, sagði þetta meðal annars gert vegna þess að kínversk stjórnvöld, nánar tiltekið Kínverski kommúnistaflokkurinn, væri sífellt að stela „ekki aðeins bandarískri hönnun og hugverkum heldur líka evrópskri," og að þetta athæfi kostaði hundruð þúsunda Bandaríkjamanna og Evrópubúa atvinnuna.

„Miðpunkturinn í víðfeðmu njósna- og aðgerðaneti“

Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður Repúblikana og starfandi formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildarinnar, fullyrti í gærkvöld að ræðismannsskrifstofan í Houston væri „miðpunkturinn í víðfeðmu njósna- og aðgerðaneti [kínverska] Kommúnistaflokksins í Bandaríkjunum."

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lét í veðri vaka að fleiri kínverskum ræðismannsskrifstofum yrði lokað á næstunni. „Það er alltaf möguleiki," sagði forsetinn á blaðamannafundi í gærkvöld, eftir að fréttir bárust af lokun skrifstofunnar í Houston.

Kínverjar fordæma lokunina

Alls halda Kínverjar úti fimm ræðismannsskrifstofum í Bandaríkjunum, auk sendiráðsins í Washington. Kínverska utanríkisráðuneytið fordæmir lokunina og segir hana „svívirðilega og tilefnislausa aðgerð sem mun skaða samskipti Kína og Bandaríkjanna." Wang Wenbin, talsmaður ráðuneytisins, hvetur Bandaríkjastjórn til að „falla frá þessari röngu ákvörðun sinni þegar í stað. Að öðrum kosti mun Kína hiklaust grípa til viðeigandi og nauðsynlegra gagnráðstafana."

Segir sendiráði og starfsfólki hafa borist hótanir

Wang fullyrti að útsendarar Bandaríkjastjórnar hefðu ítrekað opnað sekki með kínverskum diplómatapósti án heimildar, þvert á alþjóðalög, og jafnvel hirt úr þeim opinbert gögn. Þá sagði hann að kínverska sendiráðinu í Washington hefði ítrekað borist hvort tveggja „sprengju- og líflátshótanir gegn kínverskum sendiskrifstofum í Bandaríkjunum og starfsfólki þeirra."

Stirð samskipti stirðna enn

Samskipti Bandaríkjanna og Kína hafa verið með stirðasta móti síðustu ár, eftir að Donald Trump hóf það sem hann hefur sjálfur kallað viðskiptastríð gegn Kína snemma í forsetatíð sinni.

Þau versnuðu svo enn frekar með tilkomu kórónaveirufaraldursins, sem Trump hefur margoft sakað Kínverja um að breiða út um heiminn, ýmist vísvitand eða fyrir vítavert gáleysi.

Þá hefur linnulaus barátta Bandaríkjastjórnar gegn notkun vestrænna ríkja á búnaði kínverska tæknirisans Huawei við 5G-væðingu fjarskiptakerfa líka strokið kínverskum stjórnvöldum andhæris.