
Trump sendir alríkislögreglu til Chicago og Kansas City
Um 200 lögreglumenn úr FBI og þremur alríkislöggæslustofnunum öðrum hafa þegar verið sendir til Kansasborgar. Álíka margir verða sendir til Chicago og um 30 til Albequerque í Nýju Mexíkó.
William Barr, dómsmálaráðherra, var á fréttamannafundinum með forsetanum. Hann lagði áherslu á að þessi liðsauki væri ekki þungvopnuð sveit á borð við þá sem sökuð er um að fara um götur Portlandborgar í Oregon til að berja niður mótmæli með ógnandi tilburðum og fjölmörgum, tilviljanakenndum og oft og tíðum ólögmætum handtökum.
Sagði Barr hlutverk alríkislögregluliðsins í borgunum þremur eingöngu að sinna hefðbundnum löggæslustörfum til að „vernda íbúa þessara borga fyrir glórulausum og banvænum ofbeldisverkum með því að fanga þá sem eru flæktir í starfsemi glæpagengja og þá sem nota byssur til að fremja ofbeldisglæpi.“
Byssuglæpum fjölgar milli ára
Í frétt AFP kemur fram að byssuglæpum hafi fjölgað mjög í mörgum borgum Bandaríkjanna það sem af er ári. Í Chicago hafa um 1.640 glæpir þar sem skotvopnum var beitt verið skráðir frá áramótum, og 414 morð verið framin. Hvort tveggja er um helmingsaukning miðað við sama tíma í fyrra.
Í frétt AFP segir að lögregla reki þetta ekki síst til streitu og efnahagsþrenginga vegna COVID-19 faraldursins, vaxandi átaka milli glæpagengja og greiðs aðgangs að skotvopnum. Yfir 60 manns urðu fyrir skoti í Chicago um síðustu helgi og 14 þeirra létust af sárum sínum.
Og Chicago er ekkert einsdæmi, segir í frétt AFP. Í New York hafa skotárásir ekki verið tíðari í meira en áratug, og svipaða sögu er að segja úr mörgum borgum öðrum.
Pólitíkin ekki langt undan
Það hefur þó óneitanlega vakið athygli að í öllum þeim borgum, sem Trump hefur eða hyggst styrkja lögregluliðið með sveitum alríkislögreglumanna, eru Demókratar við völd. Forsetinn heldur því gjarnan fram að Demókratar taki glæpi og glæpamenn lausatökum og undirstrikar að sama skapi að hann sé maður laga og réttar, sem taki hart á hvers kyns glæpalýð.
Nú þegar kórónaveirufaraldurinn hefur sett bandarískt efnahagslíf á hliðina, segja stjórnmálaskýrendur vestra, virðist sem forsetinn ætli að gera löggæslumál og baráttu gegn glæpum að einu af sínum helstu kosningamálum.