Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það er þungt að borga skuldir annarra“

Mynd: rúv / rúv

„Það er þungt að borga skuldir annarra“

23.07.2020 - 11:23

Höfundar

„Ég var svo tryllt. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að ég fór í ákveðna sjálfsskoðun,“ segir leikkonan Helga Braga Jónsdóttir. 

Helga Braga var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1.

Var fyrst í dramatískum hlutverkum
Helga hefur um árabil verið ein ástsælasta gamanleikkona þjóðarinnar en hún segir það alls ekki hafa staðið til þegar hún var lítil. „Ég ætlaði alltaf að verða leikkona, lengi vel þegar ég er að alast upp á Akranesi þá var ég mikið í svona dramatískum hlutverkum,“ segir hún. „Ég lék að vísu Línu Langsokk þegar ég var 15 ára og var lengi kölluð bara Lína Langsokkur á Akranesi,“ segir Helga. Hún segir það hafa verið mikill kvenlegur kraftur í því að leika Línu.

„Hún gaf mér mikið. Ég mæli með því að leika Línu Langsokk þegar maður er unglingur. Það er mjög góð sjálfsstyrking,“ segir Helga sem er alin upp á Akranesi og var öflug í Skagaleikhópnum frá unga aldri. „Svo var ég að leika í skólanum. Mér fannst gaman í skóla, ég hef alltaf verið svo forvitin, ég var að gera mömmu brjálaða af því ég spurði um allt. Ég varð alltaf að fá að vita allt,“ segir hún hlæjandi.

Alltaf að leita svara við nýjum spurningum
Fróðleiksfýsnin hefur ekki minnkað með árunum og Helga hefur leitað svara við spurningum lífsins víða. Hún hefur stundað mikla sjálfsvinnu frá unga aldri og hefur hugleiðsla átt stóran þátt í lífi hennar lengi.

„Ég hef hugleitt í áraraðir,“ segir Helga sem segist þó hafa fundið sig betur með árunum. „Já, ég held ég geti sagt það. Það er þetta að öðlast ákveðna sátt og ró, þó ég sé með þennan „búbblandi“ persónuleika þá er ég miklu rólegri heldur en ég var. Og veit miklu meira hver ég er. En ég er auðvitað alltaf að leita að svörum við nýjum spurningum. Af því að um leið og maður fær svar við einhverri spurningu þá kemur um leið önnur spurning. Maður heldur alltaf áfram að læra - í vetur þá var ég til að læra jarðfræði. Ég hef aldrei lært neitt um jarðfræði og núna þá hef ég svo ægilega mikinn áhuga á jarðfræði,“ segir hún.

Hömlulaus
Fyrir nokkrum árum fór Helga í gegnum erfiðan tíma í sínu lífi. Hún segist hafa verið ansi hömlulaus - bæði þegar kom að fjármálum og mat. „Ég misnotaði mat og svo fór ég og keypti bara hömlulaust; föt, skó, ferðir, skartgripi, snyrtivörur og bara allt. Gjafir handa öðrum og alveg bara brjáluð. Ég kom mér náttúrulega í skuldir af því að stundum þénaði ég fullt en ég var fljót að eyða því. Svo var ég svo opin og treysti öðrum og skrifaði upp á lán.“

Hún segir það hafa verið dýrkeypta ákvörðun þar sem sá sem hún skrifaði upp á fyrir stóð ekki við skuldbindingar sínar. „Svo féll það á mig þannig ég gat aldrei keypt mér íbúð, það hefði verið tekið upp í af því ég var með uppáskrifað,“ segir hún.

Lenti í fjárhagserfiðleikum
„Ég lenti í fjárhagserfiðleikum. Það er þungt að borga skuldir annarra. Það féll á mig lán frá manneskju sem ég skrifaði upp á. Nokkuð stórt lán. Þannig að það var þungt. Þá neyddist ég náttúrulega, þegar þú átt ekki pening og skuldirnar eru svo miklu miklu hærri en þú mögulega getur unnið fyrir, þó þú sért dugleg að vinna og getir þénað mikið og allt það, það bara var það hátt. Ég bara réði mér lögfræðing og gerði samning við bankann um að borga þetta allt saman. Nú er ég bara búin að borga þetta allt saman og taka til og eyði helst ekki um efni fram,“ segir Helga meðal annars í fyrrnefndu viðtali.

Hægt er hlusta á viðtalið við Helgu í heild sinni hér, í spilaranum að ofan og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Áfall að vera of þungur til að fara í magaermisaðgerð

Menningarefni

Fékk morðhótanir og börnin voru áreitt vegna starfsins

Menningarefni

Hjartaáfallið reyndist vera harðsperrur