Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telja kínverskan vísindamann í felum á ræðisskrifstofu

23.07.2020 - 22:01
Ræðisskrifstofa Kína í San Francisco í Bandaríkjunum. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Hnúturinn í samskiptum Bandaríkjanna og Kína virðist herðast dag hvern. Bandaríska alríkislögreglan telur að í ræðisskrifstofu Kína í San Francisco sé kínverskur líffræðingur í felum. Tilkynnt var um lokun ræðisskrifstofu Kína í Houston í Texas í gær.

Alríkislögreglan telur að líffræðingurinn, Zhao Kaikai, hafi logið að hún hafi engin tengsl við kínverska herinn þegar hún sótti um landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Hún er talin í landinu á vegum kínverska ríkisins í þeim tilgangi að komast yfir niðurstöður bandarískra rannsókna. Þá telur alríkislögreglan að hún sé nú í felum á ræðisskrifstofunni til að sleppa við handtöku. Alríkislögreglan kveðst hafa fundið sannanir heima hjá henni um að hún sé meðlimur í kínverska kommúnistaflokknum. 

Sjá einnig: Útilokar ekki lokun fleiri kínverskra ræðisskrifstofa

Tveir Kínverjar hafa verið ákærðir á síðustu dögum í Kaliforníu-ríki. Þar stunduðu þeir allir rannsóknartengt nám við virta háskóla, að því er AFP fréttastofan greinir frá. Sá þriðji var handtekinn í síðustu viku í Indiana. Þar stundaði hann nám tengt gervigreind. 

Í gær tilkynntu bandarísk yfirvöld að ræðisskrifstofu Kínverja í Houston í Texas skyldi lokað innan 72 klukkustunda. Gangi það eftir verður því lokað á morgun klukkan 16:00, að staðartíma. Í yfirlýsingu stjórnvalda sagði að þetta væri gert til að forðast stuld Kínverja á hugverkum og mikilvægum upplýsingum. Í fyrradag voru tveir kínverskir hakkarar handteknir í Bandaríkjunum, grunaðir um að hafa staðið fyrir umfangsmikilli tölvuárás til að nálgast upplýsingar, meðal annars um rannsóknir á bóluefni við COVID-19.

epa08560385 US Secretary of State Mike Pompeo attends a press conference at Eigtveds Warehouse in Copenhagen, Denmark, 22 July 2020. Pompeo is in Denmark on an official visit with Arctic issues at the top of the agenda, according to media reports.  EPA-EFE/MADS CLAUS RASMUSSEN DENMARK OUT
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX

Cai Wei, ræðismaður Kína í Houston, hefur hvatt bandarísk yfirvöld til að leggja fram sannanir fyrir ásökunum á hendur Kína. Ræðismaðurinn segir mikilvægt að samskipti stórveldanna tveggja séu góð. Það sé vart hægt að ímynda sér að það brjótist út stríð eða kalt stríð þeirra á milli. Það yrði skelfilegt fyrir þjóðirnar tvær og sömuleiðis fyrir heiminn allan.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, flutti í dag yfirlýsingu um samskiptin við Kína. Þar nefndi hann fjarskiptafyrirtækið Huawei, sem hann telur nýtt til njósna á vegum kínverska ríkisins, ástandið í Hong kong, viðskiptastríð ríkjanna á milli og fleira. Pompeo sagði að Kínverjar sem dvelji í Bandaríkjunum um lengri tíma geri það ekki allir til að stunda nám eða vinna. Allt of margir þeirra steli hugverkum og afhendi stjórnvöldum í Kína.