Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Talibanar segjast tilbúnir í friðarviðræður

23.07.2020 - 17:46
Mynd með færslu
Liðsmenn Talibana í Afganistan. Mynd:
Talibanar í Afganistan segjast tilbúnir að hefja friðarviðræður við stjórnvöld í Kabúl í næsta mánuði. Skilyrðið sem þeir setja er að öllum föngum, sem samið hafði verið um að yrðu látnir lausir, hafi þá verið sleppt.

Bandaríkjastjórn þrýsti mjög á um að talibanar og stjórnvöld í Afganistan settust að samningaborðinu og byndu enda á styrjöldina sem staðið hefur hátt í nítján ár. Viðræðurnar áttu að hefjast í mars, en hefur stöðugt verið frestað.

Suhail Shageen, pólitískur talsmaður talibana, greindi loks frá því á Twitter í dag að þeir væru sennilega tilbúnir til að hefja friðarumleitanir eftir Eid al-Adha trúarhátíðina að því tilskildu að öllum talibönum, sem samið hefði verið um að yrðu látnir lausir, hefði þá verið sleppt úr fangelsi. Jafnframt væru þeir tilbúnir að sleppa stjórnarhermönnum, sem þeir hefðu í haldi. Eid al-Adha er ein helsta trúarhátíð múslima. Í ár stendur hún yfir frá 30. júlí til 3. ágúst. Stjórnvöld í Kabúl hafa enn ekkert tjáð sig um yfirlýsinguna.

Samkvæmt samkomulaginu sem Bandaríkjamenn beittu sér fyrir á að sleppa fimm þúsund talibönum úr fangelsi og þúsund stjórnarhermönnum. Hvorir tveggja eru langt komnir með að standa við samkomulagið.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV