Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rússar og Tyrkir hvetja til vopnahlés

23.07.2020 - 08:46
epa08557387 Fighters loyal to the UN-recognised Libyan Government of National Accord (GNA) at the area of Abu Qurain, half-way between the Tripoli and Libya's second city Benghazi, Libya, 20 July 2020, to secure it against forces loyal to Khalifa Haftar.  EPA-EFE/STR
Hermenn úr liði stjórnarinnar í Trípólí. Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússar og Tyrkir hafa sammælst um að þrýsta á deilendur í Líbíu að semja um vopnahlé. Öryggisráðgjafi Receps Tayyips Erdogans Tyrklandsforseta greindi frá þessu í morgun.

Hann sagði að ef vopnahlé ætti að verða að veruleika, yrðu sveitir líbíska stríðsherrans Khalifa Haftar að hverfa frá hafnarborginni Sirte og al-Jufra herflugvellinum um miðbik landsins.

Stjórnin sem situr í Trípólí, höfuðborg Líbíu, hefur með aðstoð Tyrkja verið að undirbúa árás á Sirte og að stefna síðan til al-Jufra. Ráðamenn í Bandaríkjunum halda því fram að Rússar hafi sent þangað flugvélar til stuðnings rússneskum málaliðum sem berjist með sveitum Haftar.

Egyptar hafa hótað því að senda her inn í Líbíu reyni sveitir Trípólístjórnar og Tyrkja að taka Sirte. Tyrkir segja hins vegar að það geti orðið hættuspil fyrir Egypta að senda lið inn í landið og torvelda friðarumleitanir í Líbíu.