Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Rannsóknir á myglu í húsbyggingum stundaðar áfram

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra nýsköpunarmála segir að ekki verði skorið niður til myglurannsókna en ekki sé ljóst hvor þær rannsóknir sem nú eru í gangi haldi áfram í núverandi mynd. Almennt standi til að efla byggingarannsóknir.

Verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar endurskipulögð

Rannsóknastofa byggingariðnaðarins sem er hluti af  Nýsköpunarmiðstöð verður lögð niður um áramótin. Ólafur Wallevik, forstöðumaður rannsóknastofunnar lýsti áhyggjum sínum af framtíð byggingarannsókna í fréttum í gær og ekki síst langtímarannsóknum sem stofan hefur verið með, ásamt fleirum, á myglu í íslenskum húsum. 
Vinnuhópur um endurskipulagningu verkefna Nýsköpunarmiðstöðvar er að störfum í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Þórdís segir að unnið sé hörðum höndum að því hvað tekur við. 
 
„Það er als ekki hugmyndin að leggja niður byggingarannsóknir heldur erum við að setja fjármuni í það á ári hverju og ég áforma ekki að skera það niður um eina krónu heldur huga að því hvernig við getum bestað það fyrirkomulag.“  
 

Ætlar að efla byggingarannsóknir á Íslandi

Það sé gert með því að setja upp samkeppnissjóð sem allir geti sótt í. Byggingarannsóknir séu orðnar landamæralausar og mögulegt að vinna að slíkum rannsóknum með fólki frá öðrum löndum. 
 
„Þannig að mín hugmynd og mín áform eru að efla byggingarannsóknir í landinu svo þurfum við bara saman að finna hvernig það er best gert.“
 

Óljóst hvað verður um núverandi myglurannsóknir

Rannsóknastofa byggingariðnaðarins hefur ásamt háskólunum og sex verkfræðistofum gert átak, síðustu þrjú ár, í að finna orsök myglu í íslenskum húsum. Átakið hefur gengið undir nafninu betri byggingar. Til dæmis er verið að rannsaka íslenska útvegginn, sýni hafa verið tekin úr öllum spóna- og gifsplötum og krossviði, verið er að prófa efni sem hægir á myglu o.m.fl.  
Hvað verður um þessar myglurannsóknir? 
 
„Hvort að þær haldi áfram í þeirri mynd sem nú er get ég ekki sagt til um en við munum áfram stunda rannsóknir þegar kemur að myglu vegna þess að ég er hjartanlega sammála forstöðumanni þar að það er mikið vandamál á Íslandi.“

Vert sé að finna út hvers vegna mygla í húsum á Íslandi sé svona mikið vandamál. Ekki standi til að sker niður, eða hætta heldur eigi að finna út hvernig best sé að halda utan um verkið.

„Ég hef líka rætt það við félagsmálaráðherra núna er með mannvirkjamálin hjá sér hvort að við getum með einhverjum hætti tekið höndum saman og eflt þær enn frekar.  Það er verkefnið og ég held að við séum öll sammála um það.“