Mótmæla afturköllun kjarabóta harðlega

Mynd: RÚV / RÚV
Yfirlögregluþjónar hjá ríkislögreglustjóra mótmæla harðlega áformum hennar um að vinda ofan af kjarabótum þeirra sem gerðar voru í tíð Haraldar Johannessen. Þeir segja lögfræðiálit ríkislögreglustjóra pantað, málið allt snúist um valdabaráttu og muni enda fyrir dómstólum.

Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, samdi í ágúst í fyrra við yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna hjá embættinu um kjarabætur sem færðu þeim aukin lífeyrisréttindi.

Haraldur lét af störfum um áramótin. Sigríður Björk Guðjónsdóttir var skipuð ríkislögreglustjóri þann 16. mars síðastliðinn og tók þar með við af Haraldi. Dómsmálaráðherra fól henni að taka áðurnefnda samninga til skoðunar sem hún gerði. 

Niðurstaða álitsgerðar sem Sigríður Björk lét Forum lögmenn vinna er að Haraldur Johannessen hafi ekki haft heimild til að semja við yfirlögregluþjónana um kjarabætur. Í kjölfarið tilkynnti hún yfirmönnum hjá embættinu að hún ætlaði að vinda ofan af samkomulaginu.

Yfirlögregluþjónarnir höfðu tvær vikur til að skila inn andmælum. Kristján Thorlacius lögmaður þeirra hefur nú skilað þeim til ríkislögreglustjóra og í þeim er áformum hennar harðlega mótmælt.

„Hann er algjörlega löglega gerður og á eðlilegum forsendum þannig að við sjáum engin rök fyrir þeirri ætlan hennar að fella þetta niður,“ sagði Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn, í samtali við fréttastofu.

Þið mótmælið harðlega? „Við gerum það hérna og teljum að þessi málatilbúnaður sé löngu kominn í gang og þetta lögfræðiálit sem gjörningurinn er byggður á sé bara pantað lögfræðiálit til þess að setja undir þá ætlan hennar að fella þennan samning niður.“

Óskar segist ekkert geta fullyrt um hvort þetta sé liður í skipulagsbreytingum sem Sigríður Björk hafi boðað en lögreglustjórar hafi verið á móti þessum samningum frá byrjun og barist hatrammlega gegn þeim í gegnum dómsmálaráðuneytið.

„Mín persónulega skoðun er sú að síðastliðið haust þegar þetta fór í gang þá var mikil valdabarátta í gangi flestir lögreglustjórar unnu að því að koma Haraldi Johannessen frá og að mínu viti var þetta bara einn liður í því með því að berjast gegn þessum samningi fyrir utan það að það fer líka í taugarnar á þeim að yfirlögregluþjónar skulu nálgast þá í launum,“ segir Óskar.

Hvernig sérðu fyrir þér að þetta mál fari, mun þetta enda fyrir dómstólum?

„Ef að ríkislögreglustjóri ákveður það að taka af okkur þennan samning þá allavega ég svara því ég mun fara með þetta fyrir dómstóla mitt mál, það er alveg ljóst.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi