Mögulega enginn samningur Breta og ESB í ár

23.07.2020 - 15:09
Mynd með færslu
 Mynd:
David Frost, aðalsamningamaður bresku ríkisstjórnarinnar um tengsl Breta og Evrópusambandsins í framtíðinni, segir í yfirlýsingu sem hann birti í dag að svo kunni að fara að samningur náist ekki fyrir áramótin. Þar sem innan við hálft ár sé til stefnu verði landsmenn að búa sig undir hvað sem er eftir áramót, náist samningar ekki.

Frost segir að eftir síðustu lotu samningaviðræðna Breta og ESB beri enn verulega í milli í mikilvægum málaflokkum. Þar á meðal er svonefnd jöfn samkeppnisskilyrði og aðgangur Evrópusambandsþjóða að breskum fiskimiðum.

Boris Johnson forsætisráðherra lýsti því yfir í síðasta mánuði að hann væri vongóður um að hægt yrði að ganga frá nýjum viðskiptasamningi við ESB fyrir júlílok. Aðlögunartímabili Breta vegna Brexit lýkur um áramót. Þeir neita staðfastlega að lengja tímabilið.

Magra mánaða samningaviðræður hafa litlu skilað þar sem Bretar neita að falla á ýmsar kröfur ESB um aðgang að markaði þeirra. David Frost segir að áfram verði reynt að ná samkomulagi af fullri einurð, en óvissan aukist um að það náist eftir því sem líður á árið.

Evrópusambandinu virðist ekki liggja eins mikið á og Bretum að ná samkomulagi. Því myndi duga að samningur væri tilbúinn fyrir lok október til að Evrópuþingið og aðrar stofnanir sambandsins gætu staðfest hann.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi