Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.
Um það bil þriðjungur Bangladess er á kafi í vatni og yfir 250 manns hafa farist í miklum flóðum í Suður-Asíu á síðustu vikum. Regntímabilið stendur sem hæst í sunnanverðri Asíu, þar sem úrhellisrigning hefur leitt til gríðarmikilla flóða. Minnst 81 hefur farist í Bangladess, þar sem eitt mesta vatnsveður um margra ára skeið hefur fært um þriðjung alls lands á kaf. Um þrjár milljónir Bangladessa hafa ýmist hrakist á flótta undan flóðunum eða komast hvergi vegna þeirra.
Í nágrannaríkinu Nepal hafa aur- og grjótskriður, flóð og óveður kostað minnst 131 mannslíf frá því að regntímabilið hófst í júní og 48 er saknað. 60 hafa farist af sömu sökum í Assam-héraði í Norðaustur-Indlandi, þar sem rignt hefur uppstyttulaust frá mánaðamótum. Þar eru einnig um þrjár milljónir manna á hrakhólum vegna þessara árlegu hamfara.
Spáð er áframhaldandi úrhelli á þessum slóðum næstu tíu daga hið minnsta.