Metfjöldi nýsmita greindist í Brasilíu

23.07.2020 - 02:40
epa08560362 A health worker collects swab samples for coronavirus COVID-19 Rapid Antigen detection testing from a mobile testing van in New Delhi, India, 22 July 2020. According to the news reports India is listed as the third country worldwide in regards to total covid19 cases after the United States and Brazil.  EPA-EFE/SANJEEV GUPTA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nær 68.000 kórónaveirusmit greindust í Brasilíu síðasta sólarhringinn, fleiri en nokkru sinni fyrr á einum degi þar í landi. Í tilkynningu frá heilbrigðisyfirvöldum segir að 67.860 ný smit hafi greinst frá þriðjudegi til miðvikudags og 1.284 dauðsföll af völdum COVID-19 verið staðfest á sama tíma. Staðfest smit eru nú orðin ríflega 2,2 milljónir talsins og dauðsföllin nálgast að vera 83.000.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsti því yfir í síðustu viku, að faraldurinn hefði mögulega náð hámarki í Brasilíu, og hvatti stjórnvöld til að grípa til róttækra aðgerða til að hemja frekari útbreiðslu veirunnar. Undanfarna viku hafa geinst ríflega 37.000 tilfelli á dag að meðaltali og um 1.050 dauðsföll á dag verið rakin til COVID-19. Metfjöldi nýsmita síðasta sólarhringinn var því töluvert bakslag, en fyrra met, 54.771 smit, er frá 19. júní. 

AFP-fréttastofan segir sérfræðinga í faraldursfræðum telja fjölda smitaðra og látinna mun meiri en þessar tölur segi til um. Skimun sé hvergi nærri nógu öflug til að greina raunverulega útbreiðslu sjúkdómsins og sjúkrahús og líkhús landsins engan veginn fær um að greina öll dauðsföll af hans völdum.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi