Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lundi fannst á miðjum Langjökli

23.07.2020 - 17:13
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Hópur fólks sem var í leiðangri á Langjökli í gær kom auga á lunda sem lá þar í snjónum. Að sögn Mörthu Jónasdóttur, sem fór fyrir hópnum, fannst fuglinn á jöklinum miðjum.

Hópurinn fór í leiðangur á jökulinn á jöklarútunni Sleipni, sem sjá má á ljósmyndinni hér að ofan. Martha segir að lundinn hafi verið algjörlega bjargarlaus. „Hann lá þarna og gat ekki flogið,“ segir hún.

Martha segir að rútan hafi numið staðar hjá lundanum. „Við fórum út úr rútunni og trúðum ekki okkar eigin augum,“ segir hún. Auðvelt reyndist að fanga lundann. Martha segir að farið hafi verið með lundann inn í rútuna þar sem hann var í góðu yfirlæti það sem eftir lifði ferðar. Hópurinn hélt til Borgarness þar sem lundanum var sleppt út á haf. Honum tókst með ágætum að fljúga eftir gott atlæti í rútunni.

Martha fer reglulega í jöklaferðir en hún segist aldrei hafa séð lunda á jöklum. Hún hefur einstaka sinnum séð hrafna í grennd við íshellinn Into the Glacier en að öðru leyti eru fuglar sjaldséðir gestir á Langjökli. 

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands og doktor í líffræði, segir í samtali við fréttastofu að hann kunni enga skýringu á því hvers vegna lundinn villtist upp á jökul. Hann segist ekki vita um marga fundi af þessu tagi. Erpur segir að lundar geti villst í miklum óveðrum en þeir fara þó sjaldnast langt.