Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kvartað undan framgöngu lögreglustjórans á Suðurnesjum

23.07.2020 - 12:26
Mynd með færslu
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Kvartanir vegna framgöngu Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, eru á borði dómsmálaráðherra. Tveir starfsmenn embættisins leituðu til trúnaðarmanns, sem bar erindi þeirra til ráðherrans í maí síðastliðnum.

Þetta staðfestir trúnaðarmaður starfsmanna hjá embætti Lögreglunnar á Suðurnesjum við fréttastofu. Kvartanirnar snúa annars vegar að viðkvæmum skjölum lögreglustjórans, sem voru í prentara á skrifstofu embættisins, og hins vegar að framkomu lögreglustjórans gagnvart kvenkyns starfsmanni. Ólafur Helgi vill ekki tjá sig um málið að svo stöddu. 

Að sögn trúnaðarmannsins leitaði hann til dómsmálaráðherra þar sem almenna reglan í slíkum málum sé að leita til næsta yfirmanns þess aðila sem kvartað er undan, sem í þessu tilviki er ráðherra. Þetta gerist um miðjan maí.

Hafna ásökunum um einelti

Rúmum mánuði síðar berast kvartanir tveggja starfsmanna embættisins til fagráðs lögreglu vegna eineltis tveggja yfirmanna innan embættisins, líkt og greint hefur verið frá í fréttum RÚV. Annar yfirmaðurinn sem kvartað var undan er Alda Hrönn Jóhannsdóttir, hinn er mannauðstjóri embættisins. Þau sendu frá sér yfirlýsingu í morgun, ásamt tveimur öðrum starfsmönnum, í tilefni af umfjöllun fjölmiðla undanfarna daga. Þar vísa þau alfarið á bug þeim ávirðingum sem á þau hafa verið bornar, enda séu þær alrangar. Að öðru leyti vilja þau ekki tjá sig um málið opinberlega, þar sem það sé viðkvæmt og þau bundin trúnaði þar um, auk þess sem málið sé til meðferðar hjá viðeigandi aðilum.

Vinnustöðin varla starfhæf og margir í veikindaleyfi

Alda Hrönn og mannauðsstjórinn eru í veikindaleyfi frá störfum. Samkvæmt heimildum fréttastofu er trúnaðarmaður starfsmanna einnig í veikindaleyfi, að sögn vegna þess að hann hafi verið óvinnufær vegna áreitis frá Ólafi Helga, lögreglustjóra, eftir að trúnaðarmaðurinn leitaði til dómsmálaráðherra vegna framgöngu hans.

Fréttastofa hefur rætt við fjölda starfsmanna innan embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem eru sammála um að við núverandi ástand verði ekki unað. Starfstöð yfirstjórnar embættisins sé nánast óstarfhæf og nauðsynlegt að brugðist verði við.

Ráðuneytið ætlar ekki að svara

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Ólafur Helgi setið minnst fjóra fundi með dómsmálaráðherra vegna málsins. Fréttastofa hefur ítrekað reynt að ná tali af dómsmálaráðherra undanfarna daga og óskað upplýsinga vegna málsins frá dómsmálaráðuneytinu. Ráðuneytið ætlar ekki að svara fyrirspurnum vegna málsins, og ber við ákvæði upplýsingalaga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.