Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Íslendingar kröfuharðari kúnnar

23.07.2020 - 20:13
Mun meira hefur verið að gera í ferðaþjónustu hér á landi miðað við þær væntingar sem gerðar voru til sumarsins. Íslenskir ferðamenn eru kröfuharðari viðskiptavinir en erlendir ferðamenn. Þá er sumstaðar skortur á starfsfólki til að anna eftirspurn.

Sumarleyfistíminn stendur nú sem hæst og landsmenn virðast ætla að fylgja tilmælum um að ferðast innanlands í sumar í stað þess að ferðast út fyrir landsteinana. Sumarið hefur víða verið mun líflegra en vonir stóðu til. Íslendingar haga sér almennt öðruvísi á ferðalögum en erlendir ferðamenn.

„Þeir eru kröfuharðari. Þeir vilja hlutina svolítið hratt. Það þarf meiri mannskap til að þjónusta þá. En neikvæði hlutinn er  að tekjurnar eru miklu miklu minni. Það er verið að selja þjónustuna langt undir kostnaðarverði. Þó að það sé mikið líf og fjör og mikið að gera þá er þetta ekki eitthvað sem getur gengið til langtíma.“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðssofu Norðurlands.

Frumkvöðlar horfið á braut

Greinar innan ferðaþjónustunnar hafa þurft að aðlaga sig að breyttri kauphegðun. Til að mynda hafa bílaleigur þurft að bjóða í auknum mæli upp á húsbíla og ferðabíla og stóla frekar á langtímaleigur á bílum frekar en skammtímaleigur til erlendra ferðamanna að sögn Arnheiðar. Þá hafi ferðaþjónustufyrirtæki sem eru sérhæfð í þjónustu við erlenda ferðamenn frekar horfið á braut og frumkvöðlar þurft að hætta rekstri.

Miklar uppsagnir og samdráttur var í vor innan ferðaþjónustunnar, en nú stendur háannatíminn yfir með aukinni aðsókn í þjónustu og gistingu.

Hefur fólk alveg haft burði til að taka á móti þessum fjölda?

„Nei þar nefnilega liggur stóri vandinn núna. Við höfum fengið það mikið af gestum að fyrirtækin ráða ekki við að veita alla þá þjónustu sem þau hafa kannski búnað eða húsnæði til að veita af því að það vantar mannskap í vinnu,“ segir Arnheiður.

Íslendingar hjarðdýr á ferðalögum

Svo virðist sem ákveðnir staðir njóti heldur meiri vinsælda meðal ferðalanga en aðrir.  Í því samhengi nefnir Arnheiður staði eins og Akureyri, Mývatn, Siglufjörð og Húsavík á Norðurlandi, Stuðlagil á Austurlandi og margir sem hafa lengi stefnt á Vestfirði hafa látið verða að því í sumar. Þá njóta baðstaðir víða um land mikilla vinsælda auk þess sem margir fari í hvalaskoðun. 

Markaðsstofur landshlutanna tóku höndum saman við auglýsingastofuna Tjarnargötuna og settu upp vefinn Upplifðu.is. Þar er hægt að skipuleggja innanlandsferðalög með gagnvirkum hætti. Vefurinn er umfangsmesta samstarfsverkefni sem markaðsstofurnar hafa tekið sér fyrir hendur.

„Íslendingar eru mjög duglegir við að sækja á sömu staðina og staðir komast í tísku og menn færa sig svolítið á milli. Þetta er verkfæri til að sýna þessa minna þekktu hluti eða litlu hluti og sýna önnur svæði heldur en venjulega og líka til að fá menn til að dvelja lengur á hverjum stað.“ segir Arnheiður.

Upphaflega stóð til að setja upplýsingaveituna saman með erlenda ferðamenn í huga en vegna fjárskorts tóku Markaðsstofurnar við verkefninu og aðlöguðu að fyrirliggjandi eftirspurn á innanlandsmarkaði. 

„Þetta verkfæri á vonandi að breyta ferðahegðun til lengri tíma, því við vonum að Íslendingar haldi áfram að vera duglegir að heimsækja okkur og nýta sér ferðaþjónustuna þegar þeir sjá núna í sumar hvað það er ofboðslega mikil uppbygging og þjónusta sem er í boði.“ segir Arnheiður.

Höfuðborgarsvæðið fær versta skellinn

Þeir sem ferðast um landið koma yfirleitt af höfuðborgarsvæðinu og því er staðan hvað verst þar, sérstaklega hvað varðar gistingu. Hrun ferðaþjónustunnar í vor sé að bitna verst á höfuðborgarsvæðinu.
Þó að bjart sé yfir víða annarsstaðar núna er viðbúið að það verði skammgóður vermir.

„Já við gerum ráð fyrir að þessum tíma, þar sem er mikið líf og fjör að honum ljúki núna um miðjan ágúst. Íslendingarnir hætta að ferðast eftir verslunarmannahelgi. Og þá ríður á að erlendu ferðamennirnir komi inn. Það er aðeins byrjað að tínast inn af bókunum og við erum aðeins farin að sjá erlendu ferðamennina svona seinustu tvær vikurnar. Svo það verður einhver sárabót en alltof lítið auðvitað. Það er frábært að fá þetta sumar svona gott. Það er frábært að fá Íslendingana og þeir í rauninni eru að bjarga því sem bjargað verður.“ segir Arnheiður.