Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ingi metinn hæfastur umsækjenda en Halldóra næst hæfust

23.07.2020 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara hefur skilað umsögn sinni um umsækjendur um tvö laus embætti dómara við Héraðsdóm Reykjaness. Niðurstaða dómnefndar er að Ingi Tryggvason lögmaður sé hæfastur umsækjenda. Næst hæfust er Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík.

Embættin voru auglýst til umsóknar 24. apríl og 29. maí 2020. Alls bárust 15 umsóknir um embættin en tveir umsækjendur, Guðfinnur Stefánsson og Höskuldur Þórhallsson, drógu umsóknir sínar síðar til baka. 

Eftirtalin sóttu um embættin: Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur, Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Guðfinnur Stefánsson aðstoðarmaður héraðsdómara, Guðmundína Ragnarsdóttir lögmaður, Halldóra Þorsteinsdóttir lektor, Herdís Hallmarsdóttir lögmaður, Höskuldur Þórhallsson lögmaður, Ingi Tryggvason lögmaður, Ingólfur Vignir Guðmundsson lögmaður, Ólafur Egill Jónsson aðstoðarmaður héraðsdómara, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir lektor, Sigurður Jónsson lögmaður, Sólveig Ingadóttir aðstoðarmaður héraðsdómara, Súsanna Björg Fróðadóttir aðstoðarsaksóknari og Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður

Ingi Tryggvason er fæddur 1962. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1989. Ingi öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður 1991 og sem hæstaréttarlögmaður 2013. Ingi hefur jafnframt öðlast löggildingu til starfa sem fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali. Hann hefur rekið eigin lögmannsstofu og fasteignasölu frá árinu 1999. Hann starfaði áður sem fulltrúi við Héraðsdóm Vesturlands og þar áður sem aðalfulltrúi og staðgengill sýslumanns hjá sýslumanninum í Borgarnesi. Hann var settur héraðsdómari á Vesturlandi og Austurlandi um hríð og hefur gegnt ýmsum nefndarstörfum. 

„Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða dómnefndar að Ingi Tryggvason sé hæfastur umsækjenda til að gegna embætti héraðsdómara. Hann hefur verið sjálfstætt starfandi lögmaður í rúma tvo áratugi. Áður hafði hann m.a. verið fulltrúi héraðsdómara um fjögurra ára skeið og á þeim tíma verið settur dómari nokkrum sinnum, en samhliða lögmannsstörfunum hefur hann verið meðdómandi í héraði í nokkrum fjölda mála. Að auki hefur hann fengist við margvísleg stjórnsýslustörf, þ. á m. verið um langt árabil formaður rannsóknarnefndar sjóslysa og er nú varaformaður í rannsóknarnefnd samgönguslysa. Ennfremur hefur hann sýnt í störfum sínum, fyrst og fremst sem lögmaður, að hann hefur gott vald á einkamála- og sakamálaréttarfari og á auðvelt með að greina og þar með leysa úr lögfræðilegum ágreiningsefnum á skýran og rökstuddan hátt,“ segir í umsögn dómnefndar. 

Halldóra Þorsteinsdóttir er fædd árið 1984. Hún lauk BA-prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 2008 og meistaraprófi frá sama skóla 2010. Hún hefur jafnframt lokið MBA-námi við viðskiptafræðideild HÍ. Hún öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2011. Halldóra hefur starfað sem lektor við lagadeild HR frá 2017 og sinnir stundakennslu við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst. Hún leggur stund á meistaranám í mannréttindum við Lundúnarháskóla samhliða störfum sínum. Halldóra hefur áður starfað sem lögmaður á lögmannsstofu og aðstoðarmaður í Hæstarétti. Þá hefur hún ritað fræðirit og ritrýndar greinar og gegnt nefndarstörfum. 

„Þá hefur hún sinnt ýmsum störfum innan stjórnsýslunnar, m.a. átt sæti í áfrýjunarnefnd neytendamála og er nú formaður hennar. Síðast en ekki síst hefur hún sýnt með störfum sínum og fræðiskrifum að hún á auðvelt með að færa viðhlítandi rök fyrir úrlausn lögfræðilegra álitaefna og þar með leysa úr ágreiningsmálum fyrir dómi,“ segir um Halldóru í umsögn dómnefndar. 

Dómnefndina skipuðu Eiríkur Tómasson, Kristín Benediktsdóttir, Óskar Sigurðsson, Ragnheiður Harðardóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV