„Hvaða „nýju útgjöld“ vill Bjarni ekki?“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Hvaða „nýju útgjöld“ vill Bjarni ekki?,“ spyr Andrés Ingi Jónsson þingmaður í færslu á Facebook. Þar bregst hann við viðtali Mbl.is við Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í gær þar sem hann lýsti því yfir að ekki væri svigrúm fyrir ný rekstrarútgjöld ríkisins. 

Í viðtalinu segir Bjarni það ljóst að ef ekki takist að örva hagvöxt þurfi þjóðin að aðlagast nýjum veruleika. „Þá þurf­um við að sætta okk­ur við að sú op­in­bera þjón­usta sem við höld­um úti í dag, að verðmæta­sköp­un stend­ur ekki und­ir henni,“ er haft eftir ráðherranum og að nú sé lögð áhersla á að endurheimta verðmætasköpun en ekki sé svigrúm fyrir ný rekstrarútgjöld.  

Andrés Ingi bendir á að í vor hafi ríkisstjórnin dælt milljörðum úr ríkissjóði til að koma í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja: „Þá vantaði sko ekki svigrúmið,“ skrifar hann.  

Allt svigrúm verði gufað upp í haust

Í haust þurfi svo að takast á við langtímavandann sem verður vegna COVID-19. Vinnumálastofnun hefur til dæmis spáð því að fólki á atvinnuleysisbótaskrá fjölgi í haust þegar áhrifa hópuppsagna á vormánuðum fer að gæta. Andrés Ingi furðar sig á því að fjármála- og efnahagsráðherra sjái fyrir sér að þá verði allt svigrúm gufað upp. „Eða langar hann bara minna til að beita sér fyrir því vegna þess að í haust þarf að bregðast við félagslegum afleiðingum efnahagsvandans, sem ráðherranum þykir kannski ekki jafn spennandi og aðgerðirnar sem var gripið til í þágu atvinnulífsins í vor?,“ spyr hann.

Krefur ráðherrann svara 

„Ríkisstjórnin er búin að fara yfir útgjaldarammann fyrir næstu fjárlög. Hvaða „nýju útgjöld“ komast ekki þangað inn? Hækkun grunnframfærslu námsmanna, sem lofað var í tengslum við lög um Menntasjóð? Lenging fæðingarorlofs, sem er hluti af lífskjarasamningum? Niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu, sem þingheimur samþykkti samróma á síðasta degi fyrir sumarhlé? Þessu þarf fjármálaráðherra að svara, frekar en að koma með svona óljósar yfirlýsingar,“ skrifar Andrés.  

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi