Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fyrsta uppskera af íslensku útiræktuðu grænmeti komin

Blómkálsræktun við Flúðir
 Mynd: Fréttir
Helgi Jóhannesson, ráðu­nautur hjá Ráðgjafar­miðstöð landbúnaðarins segir að fyrsta uppskera af útiræktuðu íslensku grænmeti sé komin og það sé alltaf svolítið hátíðlegt. Það fari að streyma í meira magni í verslanir um mánaðamótin. Uppskeran lofi góðu um framhaldið. 

Hvítkál, blómkál og spergilkál

Milli tuttugu og þrjátíu bændur rækta kartöflur hér á landi og álíka margir rækta grænmeti utandyra. Helgi segir að menn hafi getað byrjað þokkalega snemma í vor en það hafi ekki verið sérlega hlýtt. Fyrsta uppskeran komi yfirleitt upp úr miðjum júlí.
 
„Kálið sem sagt, hvítkál, blómkál og spergilkál og svo koma kartöflur náttúrlega þær koma oft svona í kringum miðjan júlí og þær eru líka komnar á markað. En svo koma seinna gulrætur og rófur og þetta sem tekur lengri tíma að vaxa það er oft svona í byrjun ágúst.“

Hátíðlegt þegar íslenska grænmetið kemur

Enn þá sé innflutta grænmetið yfirgnæfandi í verslunum en það nýja fari að sjást í auknum mæli í hillum strax eftir verslunarmannahelgi. 
Mikið fagnaðarefni sé þegar nýtt íslenskt grænmeti komi aftur í verslanir.
 
„Og enda er það eiginlega augljóst að þetta er miklu betra en innflutta grænmetið og menn bíða yfirleitt spenntir eftir þessu þannig að þetta er svona manni finnst alltaf svolítið hátíðlegt þegar þetta kemur aftur loksins.“

Helgi segir að í ár stefni í ágæta uppskeru.
 
„Ef að það sem eftir er af sumrinu, það er náttúrlega ekki nærri búið,  ef það er gott þá verður þetta bara góð uppskera af flest öllu þessu grænmeti sem vex úti.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV