Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Framtíðarhöfuðverkur að velja hverjir fái bóluefni

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Stefnt er að því að fimmtungur þjóðarinnar verði bólusettur gegn Covid-19 fyrir lok næsta árs. Þetta sagði sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna. Reiknað er með því að kostnaður vegna þessa nemi um 700 milljónum króna. 

 

VIlja tryggja samræmi og réttláta dreifingu

Margir vinna nú hörðum höndum að því að þróa bóluefni gegn Covid-19. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir,  segir að það hafi skort mjög á samhæfingu í þessari vinnu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og fleiri vinni að því að bæta úr því. Ísland hefur lýst áhuga á að taka þátt í nýju samstarfsverkefni, Covax, sem miðar að því að samræma framleiðslu og dreifa bóluefni með réttlátum hætti. „Við munum þannig tryggja okkur bóluefni þegar þar að kemur. Í þessu verkefni hafa verið valdir níu bóluefnaframleiðendur til samstarfs sem þykja líklegir til að skila árangri og eru sex þeirra nú komnir með bóluefni í klínískar rannsóknir,“ segir Þórólfur. 

Kostar 700 milljónir að bólusetja fimmtung íbúa

Áttatíu ríki hafa lýst yfir áhuga á því að taka þátt, þar með talin öll Norðurlöndin. Þórólfur segir stefnt að því að bólusetja fimmtung íbúa í þessum ríkjum fyrir lok árs 2021. „Það er reiknað með því að hver einstaklingur þurfi tvo skammta til að fá fulla vörn. Búist er við því að hver skammtur af bóluefninu kosti um 5000 krónur, þannig gæti kostnaðurinn við að bólusetja um 20% af þjóðinni orðið um 700 milljónir þegar þar að kemur.“ 

Líklega fái viðkvæmir hópar forgang

Þórólfur var á fundinum spurður út í það hvernig yrði valið í þennan hóp, sem á að bólusetja. Hann sagði ekki tímabært að ræða það í smáatriðum en að líklega yrði hafður sami háttur á og þegar bólusett var gegn heimsfaraldri inflúensu 2009. Þá nutu viðkvæmir hópar og heilbrigðisstarfsmenn forgangs. „Það verður alltaf einhver urgur út af því og misjafnt hverja menn telja vera í forgangi, það verður bara einn af höfuðverkjum sóttvarnalæknis að taka þátt í því.“