Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Færri fá að sjá Guðna svarinn í embætti öðru sinni

23.07.2020 - 06:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Einungis 80 fá að vera viðstaddir þegar Guðni Th. Jóhannesson tekur við embætti forseta Íslands öðru sinni þann 1. ágúst. Þegar Guðni tók fyrst við embætti árið 2016 voru boðsgestirnir 270. Ástæða fækkunar boðsgesta er kórónuveirufaraldurinn.

Morgunblaðið greinir frá þessu og hefur eftir Ágúst Geir Ágústssyni skrifstofustjóra skrifstofu yfirkjörstjórnar að vegna smithættu hafi verið ákveðið að hafa innsetninguna með öðrum hætti nú.

Komi upp smit hjá einhverjum þeirra sem sækja athöfnina mun fjöldi einstaklinga þurfa að sæta sóttkví. Þeirra á meðal eru nær allir æðstu stjórnendur ríkisins. Hefur blaðið eftir Ágústi að það væri áfall ef smit kæmi upp. „Við viljum fara varlega og sýna varúð. Með því að hafa færri viðstadda er verið að takmarka áhættuna á því að þetta fólk lendi í sóttkví. Það yrði gríðarlegt áfall ef upp kæmi sýking,“ sagði hann.

Tíðkast hefur að bjóða m.a. öllum alþingismönnum, fyrrverandi forsetum þingsins og Hæstaréttar, auk formanna ýmissa félagasamtaka. Þeir fá ekki allir boð í ár.