Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Engir til að tína bláberin

23.07.2020 - 07:49
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Bláberin og múltuberin eru bústin og vel þroskuð, en ekki er þó víst að þau eigi nokkurn tímann eftir að rata í verslanir eða matvælaframleiðslu. Vegna kórónuveirunnar hafa óvenjufáir Taílendingar komið til Svíþjóðar þetta sumarið til að starfa við berjatínslu.

Sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá og segir stöðuna áhyggjuefni fyrir berjaiðnaðinn. Taílendingar eru jafnan fjölmennir í hópi berjatínslufólk, en nú er staðan önnur og hætta á að ekki takist að týna berin og koma í frysti í tæka tíð.

„Vandinn verður að koma hráefninu í hús,“ hefur SVT eftir Ulf Hagner en frystiklefar fyrirtækis hans í Stöde geta hýst þúsundir tonna af berjum. Berjauppskera síðustu tveggja ára var hins vegar léleg og nú er lagerstaðan lág. Það skiptir því máli að koma uppskerunni í hús.

Hann vonast til að geta fengið Svía til starfa. „Við eigum þessa gömlu hefð í Svíþjóð, sem er skattfrjáls berjatínsla. Við vonum að landsmenn og líka aðrir Evrópubúar komi til landsins og sýni að það sé í lagi að fá borgað fyrir á berjatínslu,“ segir Hagner.