Ekki viðtekið hjá lögreglu að tala um skattgreiðendur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Starfsmaður fjarskiptamiðstöðvar lögreglu segist hafa valið klaufaleg orð í samskiptum sínum við konu sem hringdi í neyðarlínuna, fyrr í vikunni, vegna samborgara í neyð. Hann spurði hana hvort maðurinn sem hún hafði áhyggjur af liti út eins og skattgreiðandi. Embætti Ríkislögreglustjóra hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins, þar er ítrekað að allir sem leiti til lögreglu eigi rétt á sömu þjónustu og virðingu.

Orðlaus yfir orðnotkun

Konan var á gangi í miðborg Reykjavíkur og sá þar mann sem sat á gangstéttarbrún og virtist vera með skerta meðvitund. Hún hringdi í neyðarlínuna og var í kjölfarið gefið samband við lögreglumann.

Sjá einnig: „Lítur hann út eins og skattgreiðandi?“

Í færslu sem hún skrifaði á Facebook á þriðjudagskvöld segir hún að lögreglumaðurinn hafi, eftir að hún hafði lýst ástandi mannsins eins vel og hún gat, spurt hvort hann liti út eins og skattgreiðandi. Konan segist hafa orðið orðlaus og hún velti því upp í færslunni hvort viðbrögð lögreglu í svona málum færu eftir því hver ætti í hlut hverju sinni. 

Tóku málið til skoðunar

Í kjölfar fréttaflutnings RÚV af málinu var það tekið til skoðunar hjá embætti Ríkislögreglustjóra, í því fólst meðal annars að hlusta á upptöku af téðu símtali. Í tilkynningu sem embættið sendi frá sér seinnipartinn í dag kemur fram að sú skoðun hafi leitt í ljós að samskipti starfsmannsins við konuna hefðu mátt vera betri. Tekið er fram að orðalag starfsmannsins endurspegli hvorki viðhorf hans sjálfs né lögreglunnar í heild til skjólstæðinga hennar.

Gengst að fullu við mistökum

Starfsmaðurinn segist hafa valið klaufaleg orð þegar hann hafi verið að reyna að átta sig á stöðunni, þetta hafi alls ekki verið illa meint. Hann hafi áttað sig á mistökum sínu og gangist að fullu við þeim. Í tilkynningunni er lögð áhersla á að þetta orðfæri sé ekki viðtekið innan lögreglunnar. Allir sem til hennar leiti eigi rétt á sömu þjónustu og virðingu. 

Þá kemur fram að embættið hafi sett sig í samband við konuna sem hringdi inn, upplýst hana um málsmeðferðina og skýringar starfsmannsins. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi