Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ef lífið er vegur er vegur þá líka líf?

Mynd: Bakkastofa / RÚV

Ef lífið er vegur er vegur þá líka líf?

23.07.2020 - 08:47

Höfundar

Tónlistarmaðurinn Valgeir Guðjónsson frumflutti lagið Þjóðvegur 1 í Sumarmálum á Rás 1. „Lagið skýrir sig algjörlega sjálft,“ segir hann. Hjónin Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Valgeir Guðjónsson starfrækja menningarsetrið Bakkastofu á Eyrarbakka og þau buðu hlustendum Sumarmála upp á sýnishorn af dagskránni.

Í Bakkastofu er ýmislegt um að vera svo sem sagnavökur, tónleikar og námskeið. Ásta Kristrún segir að starfsemi menningarsetursins snúist að miklu leyti um samspil milli þeirra hjóna og gesta setursins.

Hún segir að ákveðin hlutverkaskipting hafi myndast á milli hennar og Valgeirs. Það hafi til að mynda fallið í hennar skaut að segja sögur og stuttar frásagnir. „Í rauninni byggist þetta á því að fá gesti og gera fallega stund og samveru, og þegar þú ert búinn að ná upp þessari stemningu sem er nauðsynleg, þá kem ég með frásagnir af ýmsu tagi,“ segir hún. Sögurnar eru ótal margar og fjalla meðal annars um Eyrarbakka og sögu staðarins.

Syngur um „hæstvirtan“ hringveginn

Valgeir spilar þá og syngur fyrir gestina margvísleg lög úr sínum sarpi. Hann segir glettinn að margir biðji um óskalög og söngstundirnar endi alltaf með ósköpum. Þá þykir honum gaman að brydda upp á lögum sem fólk hefur ekki heyrt áður.

Mynd: Ásta Kristrún Ragnarsdóttir / RÚV

Lagið Þjóðvegur 1, sem Valgeir frumflutti í þættinum, er eitt þeirra. Þar syngur hann um hringveginn, sem bæði byrjar og endar í einum punkti og spyr: „Ef lífið er vegur er vegur þá líka líf? Ég veit bara það að ég andrúmsloftið klýf. (...) Allan daginn út og inn ek ég í öðrum heimi, hæstvirtan hringveginn.“

Ætla að eyða auði efri áranna fyrir austan

Fyrir flutningana austur höfðu þau hjónin ávallt búið í miðbæ Reykjavíkur. Hins vegar hafi komið að vendipunkti eftir sextugsafmæli Valgeirs. Þá hafi þau velt því fyrir sér hvar á landinu þau langaði að eyða efri árunum og auði þeirra. Nálægð við sjóinn var hluti af ákvarðanatökunni, sem og frelsi til að skapa og leita inn á við, segir Ásta Kristrún.

Þá hafi börn þeirra hjóna stigið inn í. „Börnin okkar þrjú, þau eru okkar bakhjarlar, og það er svolítið krúttlegt, því þau ákváðu það að taka höndum saman og finna vettvang fyrir gamla fólkið þar sem við gætum látið ljós okkar skína, gætum skapað, og miðlað. Þannig að þau eru á bak við okkur.“

Ásta Kristrún og Valgeir ræddu við Gunnar Hansson og Höllu Harðardóttur í Sumarmálum á Rás 1 á mánudaginn. Þá buðu þau hjón hlustendum upp á sýnishorn af dagskránni í Bakkastofu. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ingvar E. á hringvegi ljóðsins

Ferðaþjónusta

Vilja laða að ferðamenn með öðrum hringvegi

Tónlist

Valgeir á meðal tíu bestu á Tónskáldaþinginu