Allir eru sömu gerðar bæði yst og innst

Mynd: RÚV / RÚV

Allir eru sömu gerðar bæði yst og innst

23.07.2020 - 12:28

Höfundar

„Ég á efðaefni sameiginleg með íbúum, innfluttum eða innfæddum, Evrópu, Asíu, Afríku og Eyjaálfu. Formæður mínar hafa verið kolsvartar, svartar, dökkbrúnar, brúnar, ljósbrúnar og hvítar svo nokkuð sé nefnt.“ Að gefnu og augljósu tilefni hugleiðir Ragnheiður Gyða Jónsdóttir litbrigði mannkyns í öðrum pistli sínum í Tengivagninum á Rás 1.

Ragnheiður Gyða Jónsdóttir skrifar:

„Seg mér, Söngyðja, frá hinum víðförla manni, er hraktist mjög víða, eftir það hann hafði lagt í eyði hina helgu Trójuborg, þeim er sá borgir og þekkti skaplyndi margra manna.“ Upphaf Ódysseifskviðu á fornri grísku og Sveinbjörn Egilsson þýddi á íslensku á fyrri hluta 19. aldar.

Frásagnir Snorra Sturlusonar í Heimskringlu og Snorra-Eddu af norrænum mönnum frá upphafsreit í Tróju og hingað norður ásamt Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar voru viðfangsefnið í fyrsta pistli um litbrigði mannkyns.

Tæpar níu aldir eru síðan þeir settu saman sín rit og á ýmsu hefur gengið síðan, góðu og illu. Vísindi öll, fræði og tækni hafa „þróast“ svo mjög síðustu aldir, áratugi og ár að mannkyn stefnir sjálfu sér og „alheimsvæddum“ hnetti sínum í voða og vandræði, slæm hlið þróunarinnar.

Geta rakið erfðaefni langt, langt aftur í aldir

Ævintýri líkast að fylgjast með framförum á sviði erfðavísinda, síðustu tvo áratugi eða svo, góð hlið sumsé. Saga mannkyns hefur lengst í í báðar áttir síðan Ari fróði og Snorri voru uppi, og sér ekki fyrir endann á frum- og forsögulegum tímum manna, um framtíðina er auðvitað allt á huldu.

Nú er svo komið að sérfræðingar erfðagreiningastofnana víða um heim bjóða fólki allra heimshorna erfðaefnisrakningar langt, langt aftur í aldir. Og eins og Ari fróði orðaði það; hafa skal það sem sannara reynist.

Starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar sinntu þeirri þjónustu framan af en sneru sér síðan alfarið að rannsóknum á erfðaefni Íslendinga í leit að orsökum þeirra fjölmörgu sjúkdóma sem hrjá mannkyn, á líkama og sál, við góðan orðstír.

Lesa erfðaefni eins og stafi á bók

Starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar benti þó þeirri sem hér talar á að hægt væri að hafa samband við erlendar erfðagreiningarstofnanir og falast eftir slíkri rannsókn, rétt að taka fram að þetta var allnokkru fyrir útbreiðslu COVID-19. Hún fór að hans ráðum, fékk sent lítið tilraunaglas og leiðbeiningar. Hún fór eftir þeim; spýtti samviskusamlega í tilraunaglasið og sendi til baka. Ekki löngu síðar bárust henni niðurstöðurnar með netpósti.

Ef allt er með felldu höfum við fimmtíu af hundraði erfðaefnis frá mæðrum okkar, 50 af hundraði frá feðrum. Tveir XX litningar ákvarða kyn pistlahöfundar, annar frá móður hinn frá föður. Forfeður hennar og frændur skarta hins vegar kynlitningunum XY, exið frá móður og ypsilonið frá föður. Erfðaefni í hvatberum fruma kynjanna hafa þau hins vegar úr móður sinni og formæðrum hennar, ypsilonlitningar karlkynsins úr föður og forfeðrum. Erfðaefni úr hvatberum og y-litningum lesa erfðavísindamenn eins og stafi á bók, nánari rannsóknir eru flóknari og dýrari.

Pabbi pistlahöfundar er látinn, systursynir hennar með y-litninga feðra sinna. Því miðast niðurstöðurnar við erfðaefni hvatbera, móðurættina. Setraðahópur minn er rakinn til konu sem bjó í Afríku austanverðri fyrir tæpum 200 þúsund árum, af kvísl sem merkir að kvenafkomandi hennar var enn þarna í Afríku fyrir 65 þúsund árum. Hópar manna af ýmsum gerðum höfðu á þessum tíma yfirgefið Afríku og nú var komið að afkomendum þeirrar fyrir 65 árum að halda í austur; yfir Sínaískaga eða Rauðahafið um örmjótt sundið milli Djiboutí og Erítreu, yfir til Jemen.

Þá bættist enn setraðahópskvísl við og hana á ég sameiginlega með mönnum frá Portúgal til Pólínesíu. Göngugarpar miklir þessar formæður okkar allra, sumar þeirra kynntust Neanderdalsmönnum ansi náið á leiðinni en þeir og þær höfðu lagt lag sitt við Denisovanamenn á sínum ferðum og því er duggunarlítið úr báðum þessum manngerðum í mér.

Einhverjir afkomendur formæðra minna í Miðausturlöndum, kannski Mesópótamíu, sáu sér ekki annað fært en að leggja í vestur. Með í farteskinu höfðu þeir meðal annars eins og eina landbúnaðarbyltingu. Fólk var fyrir í vestri, gömlu Evrópubúarnir af blöndu alls konar manntegunda, nokkuð dekkri á húð og hár en núverandi innfæddir íbúar álfunnar, sumir þó með augu blá.

Á gresjunum norður af Svarta- og Kaspíahafi; í Úkraínu, Suður-Rússlandi og jafnvel Grúsíu eða Georgíu voru til dæmis frummælendur indó-evrópsku tungumálanna. Þeir hafa sjálfsagt lært eitt og annað af aðkomumönnum úr austri en haldið ógnarfast við sitt feðraveldi, hetjudýrkun, hermennsku, trúarbrögð, heiður, siði og venjur. Og þótti að sér þrengt því þeir héldu í suður, norður, austur og vestur. Að smíða indó-evrópsku tungumálafjölskylduna en þær tungur tala nú um 46 af 100 mannkyns, á fjórða milljarð manna af þeim bráðum átta milljörðum sem jörðina byggja.

Stórkostlega norrænt erfðaefni

Formæður mínar fóru í norð-vestur. Erfðaefnið í hvatberum mínum er stórkostlega norrænt, en næst þar á eftir er ég írsk/bresk. Írska erfðaefnið er rakið til þess hluta eyjunnar grænu sem heyrir undir það sem eftir er af breska heimsveldinu þar. Því hef ég ákveðið að vera frá konungsríkinu Dal Ríata á norðausturströnd Írlands eða Antrimhéraði. Ríkið teygði anga sína yfir til Skotlands og í mér er erfðaefni frá Hjaltlandseyjum. Gelískur Kelti að hluta. Líka enskur Kelti en þær erfðavísbendingar eru mjög dreifðar eftir landsvæðinu. Þýsk og frönsk erfðaefnin eru svo nokkuð nýtilkomin miðað við öll hin.

Hugsanlega hefur verið vel hlúð að sjómanni af skipi Hansakaupmanna á 15. öld og sömu sögu að segja af manni úr frönsku þorskveiðiskipi, Pêcheur d'Islande, frá Bretóníu, Normandí eða Flandri á tímabilinu frá lokum 18. aldar þar til togara bar að í byrjun 20. aldar.

Heldur vildi ég hafa þau erfðaefni frá þeim tíma sem germanskir og keltneskir þjóðflokkar tókust á eða blönduðust í Evrópu fyrir og eftir okkar tímatal, nú eða svonefndum þjóðflutningum miklu á 3. og 4. öld okkar tímatals. En ég get ekki þrasað við erfðaefnin.

Erum öll komin af suðurapanum Lucy

Göngur forfeðra okkar og mæðra um jörðina voru ekki farnar í heilsubótarskyni, til að „halda sér í þjálfun“, vera í góðu formi eða bara í fríi, enda tók heimsþrammið þúsundir ára og var upp á líf eða dauða.

Loftslagsbreytingar, náttúruhamfarir, fæðuskortur og ótal margt annað rak þau af stað. Leitin að betri aðstæðum, öruggara, friðsælla fæðuríkara, ógnaminnalífi fyrir sig og sína. Ég á efðaefni sameiginleg með íbúum, innfluttum eða innfædum, Evrópu, Asíu, Afríku og Eyjaálfu. Formæður mínar hafa verið kolsvartar, svartar, dökkbrúnar, brúnar, ljósbrúnar og hvítar svo nokkuð sé nefnt.

Óskyldir mér eru hins vegar frumbyggjar Ameríkuálfa, tel ég það hið versta mál. Get þó huggað mig við það að sameiginlega forfeður og mæður eigum við þar til þeir fóru frá Síberíu yfir til Norður-Ameríku fyrir margt löngu eða sigldu frá Pólínesíu til Ameríku fyrir tólf þúsund árum eða svo.

Öll erum við svo komin af afríska suðurapanum Lucy. Hún var uppi fyrir um rétt tæplega 4,5 milljónum ára og átti sér stórmerkilega sögu en afkomendur hennar áttu heldur betur eftir að bæta við. Greinast í ótal kvíslir „manna“; sterkbyggða, hæfa, uppreista, Heidelberga, Neanderdals, Denisoviana, Flóresa og svo þann sem við köllum vitiborna manninn, bara svo nokkrir séu nefndir. Sumir þessara voru samtímamenn og eignuðust afkvæmi.

Allir tæpu átta milljarðarnir eru sömu gerðar yst sem innst, viðbrögð okkar við umhverfi og öðrum mönnum eru lærð eða ólærð, upplýst eða myrk, ekki meðfædd. Við erum bleik, undanrennublá (sumir segja hvít), ljósbrún, millibrún, brún, dökkbrún, svört, rauð, gul og allt þar á milli. Augun kringlótt, misstór og skásett. En það fer bara eftir því hvar við erum upprunnin á hnetti þessum, erfðaefnum og litarefni í húðinni, það heitir melanín .....

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Litbrigði mannkyns til sálar og líkama

Trúarbrögð

Úrskurðar að erfðareglur kristinna gildi um kopta

Mannlíf

Erfðarannsóknir afhjúpa uppruna Skota

Heilbrigðismál

Erfðarannsóknir í sókn