Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Yfir 40.000 dauðsföll af völdum COVID-19 í Mexíkó

22.07.2020 - 03:24
epa08559462 A doctor visits a facilities for people infected with COVID-19, at a general hospital in the city of Tijuana in the state of Baja California, Mexico, 21 July 2020.  EPA-EFE/Joebeth Terriquez
Læknir vitjar sjúklinga á COVID-19 deild sjúkrahúss í Tijuanaborg í Mexíkó Mynd: EPA-EFE - EFE
Dauðsföll sem rakin hafa verið til COVID-19 eru nú orðin fleiri en 40.000 í Mexíkó. Þetta kemur fram í tilkynningu mexíkóskra heilbrigðisyfirvalda. Þar segir að 915 dauðsföll hafi verið rakin til þessarar skæðu farsóttar síðasta sólarhringinn og þau þar með orðin 40.400 talsins. Einungis Bandaríkin, Brasilía og Bretland hafa orðið verr úti í faraldrinum.

Fyrsta kórónaveirusmitið í landinu var staðfest 28. febrúar. Staðfest tilfelli nálgast nú að vera 360.000 en talið er víst að þau séu mun fleiri. Illa gengur að hemja útbreiðslu kórónaveirunnar í Mexíkó, þar sem hún er enn í hröðum vexti þótt eilítið hafi dregið úr fjölgun nýsmita á allra síðustu dögum. Samkvæmt upplýsingavefnum Worldometers.info greindust rúm 5.100 nýsmit í Mexíkó í gær og fyrradag, en um og yfir 7.000 dagana þar á undan.