Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vilja að Hans Egede fái að standa kyrr á sínum stað

Styttan af Hans Egede eftir skemmdarverkin.
 Mynd: knr.gl - KNR - grænlenska útvarpið

Vilja að Hans Egede fái að standa kyrr á sínum stað

22.07.2020 - 05:52

Höfundar

Íbúakosningu í Nuuk, höfuðstað Grænlands, um framtíð umdeildrar styttu af dansk-norska trúboðanum og nýlenduherranum Hans Egede þar í bæ, lauk á miðnætti. Efnt var til kosningarinnar fyrir áeggjan fólks sem vildi styttuna á burt, þar sem Egede væri tákngervingur kúgunar og undirokunar Dana á Grænlendingum í gegnum aldirnar.

Niðurstaðan var sú að 921 greiddi atkvæði með því að Egede fengi að standa áfram á sínum stað, en 600 vildu fella hann af stalli sínum. Kosningin fór fram á netinu og hófst hinn 3. júlí. Um 23.000 manns höfðu atkvæðarétt. Niðurstöður íbúakosningarinnar verða nú lagðar fyrir bæjarstjórnina í Nuuk, sem tekur endanlega ákvörðun um framtíð styttunnar hinn 1. september, segir á vef grænlenska ríkisútvarpsins, KNR.

„Forkólfur nýlenduvæðingar Grænlands“

Hans Egede var á dögum frá 1686 til 1758. Hann fór til Grænlands sem trúboði en endaði sem landsstjóri Danakonungs. Aki-Matilda Høegh-Dam, sem situr á grænlenska þinginu fyrir Siumut, stakk upp á því nýverið að styttan yrði fjarlægð og send á safn, þar sem hún ætti heima.

„Hans Egede var jú trúboði og forkólfur nýlenduvæðingar Grænlands fyrir Danakonung,“ sagði Høegh-Dam. „Þessi stytta sendur uppi á fjallstoppi og hann stendur nánast vörð um Nuuk og það er, þegar allt kemur til alls, táknrænt fyrir yfirgang nýlenduveldisins,“ sagði þingkonan hinn 23. júní síðastliðinn.   

Tengdar fréttir

Erlent

Íbúar Nuuk kjósa um tilvist styttu af nýlenduherra

Norður Ameríka

Kólumbusi steypt af stalli og hent í höfnina

Evrópa

Skemmdarverk unnið á Litlu hafmeyjunni

Evrópa

Belgar harma framgöngu sína á nýlendutímanum í Kongó