Tyggjóið í ruslið, en kyngja því annars

22.07.2020 - 19:50
Guðjón Óskarsson, sjötugur Reykvíkingur,  er kominn í herferð gegn tyggjóklessum á gangstéttum, en honum blöskraði sóðaskapurinn. Hann segir að ef fólk geti ekki hent í ruslið eigi bara að kyngja því, það komi út eins og það fór inn.  Hann býst við að hreinsa allt að tuttugu þúsund tyggjóklessur af gangstéttum miðborgar Reykjavíkur á tíu vikum.

Það virðist vera mjög algengt að þegar fólk ætlar að losa sig við tyggjóið sitt, þá kasti það því beint á götuna, jafnvel þó það standi við hliðina á ruslafötu. Ekki þarf að ganga lengi um götur miðborgarinnar til að sjá tyggjóklessur á gangstéttum og það jafnvel í stórum stíl. Guðjón Óskarsson hefur skorið upp herör gegn sóðaskapnum og fer um með þar til gerðan búnað og hreinsar klessurnar upp.

„Mér fannst kominn tími til, þetta er svodan viðbjóður. Ég líka missti vinnuna og varð náttúrlega að koma mér í að gera eitthvað. Mér fannst þetta alveg upplagt, ég hef fengist við þetta áður. Þetta er ekki erfitt, þetta er vissulega leiðinlegt og tímafrekt, en maður sér alltaf árangur og það er svolítið mikið mál,“ segir Guðjón.

Hann fjárfesti í hreinsibúnaði sem kostaði töluverða fjárhæð, en hann varð sjötugur fyrir skömmu og notaði meðal annars peninga sem hann fékk í afmælisgjöf til að kaupa búnaðinn, sem hann segir umhverfisvænan. 

En hvernig gengur þetta hjá þér?
„Þetta gengur vel. Ég tók hérna niður í Kvosinni, Skólabrú og Kirkjutorgið og inn í Vonarstræti í gær.“
Og þú telur hverja einustu klessu sem þú tínir upp?
„Já, já ég geri það til þess að fylgjast með hversu margar þær verða.“ 

Guðjón segir að undanfarið hafi færst í aukana að fólk hendi svokölluðum nikótínpúðum sem það setur í vörina og það sé jafnvel orðið algengara en sígarettustubbar. Hann segist vera um það bil tíu sekúndur að ná hverri klessu af gangstéttinni og hann hefur sett sér markmið.

„Já, ég ætla að þrífa í tíu vikur, ég veit ekki hvað ég kemst upp í mikið, en það kæmi mér ekkert á óvart að það gæti hugsanlega verið átján til tuttugu þúsund þegar upp er staðið.“
Það er nóg af þessu?
„Það er nóg af þessu, það er ekki verkefnaskortur í þessu.“ 

Guðjón fer ýmist um á rafhlaupahjóli með allan búnaðinn eða á bílnum sínum, en segist hafa borga tvö þúsund krónur í stöðumæla á tveimur dögum vegna bílsins. Hann segir að Reykjavíkurborg hafi haft samband við hann og kannað hvort hægt væri að aðstoða hann. Guðjón segist helst vilja fá að losna við að borga í stöðumæla á meðan hann sinnir þessu og í dag fékk hann svvo annað símtal um að þannig yrði það.

Á liðlega tíu metra kafla á Skólavörðustíg, sem borgin var nýbúin að láta hreinsa taldi Guðjón um 30 klessur og hann taldi þúsund klessur á Laugavegi.

Hvað viltu segja við þessa tyggjókastara?
„Þeir eiga bara að setja þetta í ruslið að sjálfsögðu. Ef þú ferð inn á Vísindavefinn þá er í lagi að kyngja þessu líka ef þú ert í vandræðum með þetta. Þetta kemur bara út eins og það fór inn, þannig að það má kyngja því.“ 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi