Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Telur fólk eiga rétt á að skilja stjórnvöld

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dæmi eru um að fólk sem talar ekki íslensku átti sig ekki á því að það geti kært ákvarðanir stjórnvalda. Ástæðan er sú að það fær ekki upplýsingar á máli sem það skilur. Þetta segir Umboðsmaður Alþingis. Hann telur að stjórnsýslulög veiti fólk rétt til að fá þessar upplýsingar. 

 

 

Frestir liðnir og lítið hægt að gera

„Tökum einfalt dæmi, þú færð birta einhverja ákvörðun. Nú gera reglurnar ráð fyrir því að þú getir kært hana til æðra stjórnvalds. Forsendur þess að þú getir nýtt þér réttinn er að þú fáir upplýsingar um hann á tungumáli sem þú skilur og ég hef í mínum störfum fengið tilvik þar sem erlendir ríkisborgarar hafa fengið slíkar ákvarðanir en ekki áttað sig á þessum tímafrestum og kæruheimildum. Þegar þeir leita til umboðsmanns þá eru þessir frestir liðnir og lítið hægt að gera,“ segir Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. „Ég held að að þessu leyti séum við ekki að standa okkur í samræmi við þær skyldur sem leiða af gildandi lögum.“

Matskennd og óskýr ákvæði

Í nýrri frumkvæðisathugun embættisins kemur fram að lagaákvæði um rétt fólks til að eiga samskipti við stjórnvöld á máli sem það skilur séu óljós. „Við höfum slík ákvæði í grunnskólalögum til dæmis og í lögum um réttindi sjúklinga en vandinn er sá að þegar þessum sérstöku ákvæðum sleppir þá er lagagrundvöllur þessara mála matskenndur og ekki að öllu leyti skýr.“

„Skuli leitast við að svara“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - Kveikur
Tryggvi Gunnarsson

 

Í lögum um stöðu íslenskrar tungu frá árinu 2011 er einungis talað um að stjórnvöld skuli leitast við að svara og veita upplýsingar á því tungumáli sem fólk skilur.

Tryggvi segir að erlendur ríkisborgari sem á í samskiptum við stjórnsýsluna viti aldrei að hverju hann gangi. Þá sé starfsfólk stjórnsýslunnar oft óvisst um hvort skuli veita upplýsingar á öðrum tungumálum en íslensku og hver skuli borga brúsann. Sýslumannsembætti hafa því mörg látið skjólstæðinga sína greiða fyrir túlkaþjónustu. 

Túlkar lögin með sama hætti og gert er á Norðurlöndunum

Íslenska er lögbundið mál stjórnsýslunnar á Íslandi en stjórnsýslulög kveða líka á um að fólk fái aðkomu að sínum málum, til dæmis að fá birtar ákvarðanir og andmæla þeim, stjórnvöld eiga að leiðbeina fólki í þessu. Tryggvi túlkar lögin með sama hætti og gert er annars staðar á Norðurlöndunum, þannig að fólk eigi rétt á upplýsingum á máli sem það skilur en segir að það þurfi að skerpa á lögunum. „Þarna þarf auðvitað að vera skýr afstaða löggjafans og stjórnvalda um hvernig eigi að leysa úr þessum málum. Viljum við veita þessum einstaklingum sem eiga í samskiptum við stjórnsýsluna og skilja ekki íslensku rétt, beinan rétt til þess að fá að eiga þessi samskipti á tungumáli sem þeir skilja og þá þannig að stjórnsýslan beri kostnað af því.“ 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV