Stærsti hópur Skapandi sumarstarfa frá upphafi

Mynd með færslu
 Mynd: Skapandi sumarstörf

Stærsti hópur Skapandi sumarstarfa frá upphafi

22.07.2020 - 12:37
Á morgun er lokahátíð Skapandi sumarstarfa í Kópavogi. Þetta er fimtánda starfssumar Skapandi sumarstarfa. Á dagskránni er farandgallerý í bleikum ísskáp, útvarpsleikrit, tónlistargjörningar, myndlistarsýningar og margt fleira.

Skapandi sumarstörf veita ungu listafólki á aldrinum 18-25 ára tækifæri til að vinna að eigin listsköpun. Í sumar voru starfrækt 20 spennandi og ólík verkefni og 36 listamenn stóðu að baki þeim. Þetta er stærsti hópur sem starfað hefur innan Skapandi sumarstarfa frá upphafi.

Á lokahátíðinni deila listamennirnir afrakstri sumarsins með gestum og gangandi, áhugasömum og forvitnum sem langar að kynnast því athyglisverðasta í íslensku grasrótinni.

Lista- og uppskeruhátíðin er haldin á morgunn, fimmtudaginn 23. júlí í Molanum og Salnum í Kópavogi. Dagskráin er frá kl. 17-20.

Hér eru nokkrir listamenn sem hafa unnið í Skapandi sumarstörfum í sumar:

Inga Steinunn Henningsdóttir og Hólmfríður Hafliðdóttir standa að verkinu Raunveru.

Atli Pálsson og Kamilla Henriau standa að baki verkefninu Gallerí Sælir Kælir.

Magnús Jochum Pálsson stendur að baki verkefninu Lim(a)lestur þar sem hann blandar saman hljóði, texta og skúlptúrum af óhefðbundnum útlimum.

Endurævintýri er hreyfimynd eftir Ynju Blævi og Lilju Cardew unnin upp úr klassísku ævintýri með úreltum boðskap um hjálparlausu stúlkuna sem prinsinn bjargar.