
Smitum og dauðsföllum fækkar stöðugt í New York
Alls 855 smit greindust í New York-fylki í gær og fimmtán létu lífið. Enginn lét lífið í New York-borg. Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, hvetur íbúa ítrekað til að huga að sóttvörnum og halda fjarlægð. Takmarkanir til að hefta útbreiðslu veirunnar hafa verið rýmkaðar smátt og smátt í New York. Þó eru enn í gildi strangar samkomutakmarkanir og veitingastaðir mega aðeins bjóða upp á sæti utandyra. Söfn eru enn lokuð og það sama á við um verslunarmiðstöðvar. Íbúar hafa margir snúið aftur til vinnu þó fjarvinna sé enn algeng. Þá er í gildi grímuskylda á fjölförnum slóðum.
Krefjast þess að fólk frá 31 fylki fari í sóttkví
Ferðafólki frá tíu fylkjum var í gær bætt á lista yfir þá sem þurfa að fara í sóttkví við komuna til New York, New Jersey og Connecticut. Listinn er uppfærður reglulega og miðast við að fólk frá fylkjum þar sem 10 prósent allra sýna reynast jákvæð, eða 10 af hverjum 100 þúsund íbúum eru smitaðir, fari í tveggja vikna sóttkví.
Listinn er liður í átaki fylkjanna þriggja til að stöðva útbreiðslu veirunnar, en þau eiga það sameiginlegt að tilfellum fækkar nú stöðugt. Fleiri en 32 þúsund hafa látið lífið úr COVID-19 í New York, samkvæmt gögnum John Hopkins háskóla.