Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óskar Maxwell alls góðs

Mynd: Hvíta húsið / Hvíta húsið
Donald Trump Bandaríkjaforseti óskar Ghislaine Maxwell, fyrrverandi unnustu barnaníðingsins Jeffrey Epsein, alls góðs.

Maxwell situr í gæsluvarðhaldi eftir að hafa verið handtekin í byrjun mánaðarins í New Hampshire í Bandaríkjunum. Henni er gefið að sök að hafa áunnið sér traust ungra stúlkna í viðkvæmri stöðu, með það fyrir augum að kynna þær fyrir Epstein. Þá er hún sjálf sökuð um að hafa brotið kynferðislega á ungum stúlkum. Hún gæti átt yfir höfði sér 35 ára fangelsisdóm og hefur alfarið neitað sök.

„Hef oft hitt hana gegnum árin“

Á blaðamannafundi í gær var forsetinn spurður hvort hann héldi að mál Maxwell myndi varpa ljósi á aðkomu valdamikilla manna í málum Epsteins. Svar forsetans var einfalt: „Ég veit það ekki, ég hef ekki fylgst sérlega vel með málinu. Ég óska henni bara alls góðs, satt að segja.“

Þá bætti hann við: „Ég hef oft hitta hana í gegnum árin, sérstaklega þegar ég bjó á Palm Beach, og ég held að þau hafi búið þar. En ég óska henni alls góðs.“ Þá segist hann ekkert vita um tengingu Maxwell við Andrés Bretaprins. 

Epstein, sem vitað er til að hafði tengsl við valdamikla menn eins og Trump, Andrés Bretaprins og Bill Clinton, var handtekinn í júlí á síðasta ári og dæmdur fyrir barnaníð. Hann fyrirfór sér í fangaklefa í ágúst síðastliðnum og Maxwell er grunuð um að hafa haldið sig í felum í kjölfarið, í von um að verða ekki bendluð við kynferðisbrotin.