Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Milliliðurinn fannst liggjandi í blóði sínu

22.07.2020 - 14:01
epa08027560 Demonstrators protest outside Malta's House of Parliament in Valletta, Malta, 26 November 2019 following the resignations of Minister Konrad Mizzi and Prime Minister Joseph Muscat's Head of Staff Keith Schembri and  Minister Chris Cardona suspending himself from any activities of his party (Partit Laburista) as Malta police investigations into the murder of late journalist Daphne Caruana Galizia in 2017 continue.  EPA-EFE/DOMENIC AQUILINA
 Mynd: EPA
Melvin Theuma, sem játað hefur að hafa verið milliliður við skipulagningu á morðinu á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia, fannst liggjandi í blóði sínu aðeins nokkrum klukkustundum áður en hann átti að bera vitni fyrir dómstól á Möltu.

Guardian greinir frá þessu og segir Theuma, sem er fyrrverandi leigubílstjóri, hafa verið skorinn á háls, líkama og úlnlið.

Theuma sem átti að vera undir eftirliti lögreglu allan sólarhringinn fannst liggjandi í blóði sínu á heimili sínu í gærkvöldið. Hann var fluttur með hraði á sjúkrahús þar sem gerð var aðgerð á honum.

Að sögn lögregluyfirvalda á Möltu er ástand hans nú stöðugt.

Theuma var náðaður af sínum þætti í morðinu á Galizia í nóvember í fyrra gegn því að hann upplýsti um allt það sem hann vissi um morðið á Galizia. Hún lést er bílsprengju var komið fyrir í bíl hennar í október árið 2017.

Vitnisburður Theuma hefur nú þegar bendlað kaupsýslumanninn Yorgen Fenech við málið. Fenech er talinn hafa verið aðalskipuleggjandi þess og var hann handtekinn í nóvember í fyrra. Hann hefur neitað allri aðild.

Telja sárin vera eftir sjálfsskaða

Angelo Gafà, lögreglustjóri Möltu, segir ýmislegt benda til þess að Theuma hafi sjálfur valdið sér sárunum. Engin varnarsár hafi þannig fundist á honum og blóðúðin gefi til kynna að um sjálfskaða hafi verið að ræða.

Engar fregnir bárust af átökum, né heldur hafði heyrst nokkur hávaði. Þá voru allir gluggar á heimili hans lokaðir, utan lítinn skrautglugga.

Yfirvöld á Möltu telja töluverða hættu á að reynt verði að ráða Theuma bana og hefur hann því fengið sólarhrings lögregluvernd frá því í fyrra. Lögreglumaður sem var á vakt fyrir utan heimili hans fór inn eftir að lögfræðingur Theuma lét vita að hann næði ekki í skjólstæðing sinn.

Theuma átti að koma fyrir dómstól í Valetta í dag, en þar hefur hann sætt yfirheyrslum undanfarið.

Guardian segir atvikið í gærkvöldi hafa aukið á þrýsting um að Europol aðstoði lögregluyfirvöld á Möltu við rannsóknina á morðinu á Galiziu.