Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Margar leyna kyni sínu til að forðast áreitni

Mynd: EPA / EPA

Margar leyna kyni sínu til að forðast áreitni

22.07.2020 - 09:02

Höfundar

Jana Sól Ísleifsdóttir stefnir á atvinnumennsku í tölvuleikjum. Að undanförnu hefur hún vakið athygli á kynferðislegri áreitni innan tölvuleikjaheimsins sem hún segir vera daglegt brauð. Margar konur fari leynt með kyn sitt í leikjunum til að forðast áreitnina, sem er sumum ofviða, segir Jana Sól. Hún hefur fengið nóg og vill að leikir verði aðgengilegir fyrir allt fólk, óháð kyni.

Fleiri stelpur spila tölvuleiki nú en áður og margar hafa sömu sögu að segja, sagði Jana Sól í Morgunútvarpi Rásar 2. Hún segir að stelpur verði fyrir aðkasti fyrir kyn sitt. Það geti skemmt leikgleðina og veldur því að margar hætta einfaldlega að spila eða velja að fara leynt með kyn sitt.

Jana Sól vill vekja athygli á vandamálinu og þeim alvarlegu andlegu afleiðingum sem því getur fylgt. Sjálf segir hún, í samtali við Fréttablaðið, að áreitnin hafi haft slæm áhrif á sig.

„Þetta [...] verður oft til þess að ég get ekki einbeitt mér að leiknum, þarf að hætta og líður svo illa restina af deginum. Sumir höndla þetta ekki og hætta að spila eða gera sér jafnvel eitthvert mein. Þetta hefur hræðileg áhrif bæði andlega og líkamlega,“ segir Jana Sól í Fréttablaðinu.

Hún segir að strákar biðji oft og tíðum um brjóstamyndir í skiptum fyrir það að þeir hjálpi henni í leiknum. Hafni hún því fái hún gjarnan yfir sig fúkyrðaflóru. „Ef ég segi nei og hafna þeim er drullað yfir mig og ég kölluð tussa, hóra og allt saman. Þetta er það sem mjög margar stelpur upplifa, ekki bara ég.“ Þá sé henni oft kennt um ef liðið hennar tapar, einfaldlega vegna þess að hún sé stelpa.

Aðspurð um hvað sé til ráða segir Jana Sól: „Ef þú sérð þetta stoppaðu það. Það skiptir engu máli af hvaða kyni þú ert, bara ekki leyfa þessu að halda áfram.“ Hún segir að flestir séu ánægðir með að hún sé farin að vekja athygli á málefninu. Það finnist þó einn og einn sem þyki fáránlegt að hún ætli að leggja í þennan slag. „En einhver þarf að byrja,“ segir hún.

Jana Sól stefnir á atvinnumennsku í leiknum Overwatch og stefnir á þátttöku í Overwatch-keppni sem Rafíþróttasamtök Íslands halda á næstunni.

 

Tengdar fréttir

Tölvuleikir eru áhugamál sem er allt í lagi að stunda

Pistlar

Sýndarveruleiki og framtíð tölvuleikja

Menningarefni

Ör þróun á sviði tölvuleikja í hálfa öld

Norður Ameríka

Walmart auglýsir ekki ofbeldisfulla tölvuleiki