Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kvörtun Rio Tinto kom Landsvirkjun á óvart

22.07.2020 - 20:46
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Forstjóri Landsvirkjunar segir að kæra Rio Tinto til Samkeppniseftirlitsins komi á óvart. Hann vísar ásökunum um samkeppnisbrot á bug.

Rio Tinto hef­ur kært Lands­virkj­un til Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins fyrir misnotkun á yfirburðastöðu fyrirtækisins á raforkumarkaði og boðar lokun álversins í Straumsvík láti Landsvirkjun ekki af háttsemi sinni.

„Við munum skoða þessi gögn sem þeir hafa lagt fram, við höfum ekki fengið þau, og síðan svara þessum ásökunum,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. „En ég ítreka það að við teljum okkur fara að öllu leyti eftir samkeppnislögum á Íslandi og í Evrópu og  að þessi samningur var á sínum tíma skoðaður af eftirlitsstofnun Evrópu og ekki gerðar neinar athugasemdir við hann.“

Samningurinn hafi verið til langs tíma að beiðni Rio Tinto

Hörður segir að kæran komi á óvart. Samningurinn hafi verið gerður til langs tíma að ósk Rio Tinto og Landsvirkjun hafi ráðist í miklar framkvæmdir og langtímaskuldbindingar til að uppfylla hann.

Í tilkynningu Rio Tinto er haft eftir forstjóra fyrirtækisins, Alf Barrios, að ISAL greiði umtalsvert meira fyrir orku en aðrir álframleiðendur á Íslandi, sem grafi undan samkeppnisstöðu fyrirtækisins. „Þessir samningar eru gerðir á mjög mismunandi tímum og margir þeirra eru orðnir hátt í 20 ára gamlir og það er mjög erfitt að bera þá saman,“ segir Hörður. 

Um 500 manns starfa í álverinu í Straumsvík. Samkvæmt upplýsingum frá Rio Tinto voru laun og launatengd gjöld fyrirtækisins 5,3 milljarðar í fyrra. Þá greiddi álverið um þrettán milljarða fyrir raforku og keypti innlenda vöru og þjónustu fyrir um 6,3 milljarða króna. 

En hvaða þýðingu hefði það fyrir Landsvirkjun ef að álverinu verður lokað? „Við teljum ótímabært að tjá okkur um það. Það eru samt ákvæði í samningnum sem gera það að verkum að það eru ríkar skuldbindingar fyrir báða aðila.“