Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kína gert að loka skrifstofum í Houston

22.07.2020 - 11:52
A firetruck is positioned outside the Chinese Consulate Wednesday, July 22, 2020, in Houston. Authorities responded to reports of a fire at the consulate. Witnesses said that people were burning paper in what appeared to be trash cans, according to police. China says the U.S. has ordered it to close its consulate in Houston in what it called a provocation that violates international law. (AP Photo/David J. Phillip)
Slökkviliðsbíll við hús ræðismanns Kína í Houston í gærkvöld. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Bandarísk stjórnvöld hafa fyrirskipað að skrifstofu ræðismanns Kína í Houston í Texas verði lokað. Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins greindi frá þessu í morgun og sagði stjórnvöld í Peking fordæma þessa ákvörðun stjórnvalda í Washington. 

Talsmaðurinn, Wang Wenbin, sagði að skipun um lokun ræðismannsskrifstofunnar hefði borist kínverskum stjórnvöldum í gær. Þetta væri pólitísk ögrun af hálfu Bandaríkjamanna og bryti í bága við alþjóðalög og tvíhliða samninga milli ríkjanna.

Talsmaðurinn sagði að kínversk stjórnvöld myndu bregðast við og svara þessu útspili Bandaríkjastjórnar yrði ákvörðunin ekki dregin til baka. 

Morgan Ortagus, talskona bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði í morgun að ákvörðunin hefði verið tekin til að vernda bandarísk hugverk og einkaupplýsingar. Samkvæmt Vínarsáttmálanum eigi ríki ekki að skipta sér af innanríkismálum annarra. Frekari skýring var ekki gefin.

Samskipti Kína og Bandaríkjanna hafa oft verið stirð, en hafa versnað til muna síðustu mánuði.

Að sögn fjölmiðla í Texas var slökkvilið og lögregla kvödd að skrifstofum ræðismanns Kína í Houston í gærkvöld því þaðan barst reykur. Hvorki slökkviliðs- né lögreglumenn hafi fengið að fara inn á lóðina, en talsmaður lögreglu sagði í viðtali að þar hefðu starfsmenn verið að brenna skjöl því vísa ætti þeim burt á föstudag.

Að sögn fréttastofunnar AFP eru fimm kínverskar ræðismannsskrifstofur í Bandaríkjunum auk sendiráðsins í Washington. Skrifstofan í Houston hafi verið opnuð árið 1979 og starfssvið hennar nái til átta ríkja, þar á meðal Texas og Flórída.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV