Jón Steinar talar fyrir frjálslegri og hlýlegri útförum

Mynd: Skjáskot / RÚV
„Prestarnir gera þetta oft vel en það verður aldrei jafn hlýlegt og þegar einhver sem þekkti hinn látna talar,“ sagði Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, á RÚV í dag. Hann vakti máls á því á dögunum að ástvinir geti séð um minningarorð í útförum í stað presta.

Jón Steinar var gestur í Síðdegisútvarpi Rásar tvö í dag.

„Auðvitað viljum við öll að útfarir séu hlýleg og góð stund. Það er ekkert betra en að einhver sem þekkti hinn látna og þótti vænt um hann tali aðeins um hann. Það megi jafnvel segi brandara eða skemmtisögu. Það er ekkert að því að hlæja í kirkju þegar það á við,“ sagði Jón Steinar. Prestar eigi erfiðara með að slá á létta strengi eigi það við heldur en ástvinur hins látna.

Prestar höfðu samband

Tveir prestar sem Jóns Steinar heyrði í lýstu yfir óánægju sinni eftir að Jón Steinar tjáði sig opinberlega um málið og töldu það skapa einhverja lausung við útfarir að sögn Jóns. Engin lög segi þó til um að þetta sé ekki hægt óski aðstandendur eftir því að flytja minningarorð í stað prests.

„Það sem vakti fyrir mér var að vekja athygli á því að við getum alveg gert þetta þannig að athafnirnar verði aðeins frjálslegri og hlýlegri,“ sagði Jón Steinar. 

„Það er sterkt í okkur að brjótast ekki út úr einhverjum svona venjum og þess vegna er ástæða til að hafa orð á þessu.“ 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi