Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ísland í þriðja sæti yfir grænustu lönd í Evrópu

22.07.2020 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Curren Podlesny - Unsplash
Ísland er í þriðja sæti yfir grænustu lönd álfunnar samkvæmt greiningu breska fjármálafyrirtækisins Nimble Fins. Svíþjóð er á toppi listans og Noregur er í öðru sæti. Greiningin er byggð á gögnum frá Eurostat, Umhverfisstofnun Evrópu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO).

Greiningin tekur til loftgæða, meðhöndlun úrgangs, endurnýjanlegra ferskvatnsbirgða, orkunotkunar, ósnortinnar náttúru og losunar gróðurhúsalofttegunda í þrjátíu ríkjum Evrópu.

Samkvæmt greiningunni stendur Ísland mun betur að vígi en aðrar þjóðir Evrópu þegar kemur að endurnýjanlegum ferskvatnsbirgðum. Einnig er hér hæst hlutfall ósnortinnar náttúru í samanburði við ræktarland og byggð. 

Ísland getur hins vegar gert mun betur þegar kemur að endurvinnslu og losun gróðurhúsalofttegunda. Aðeins 33 prósent úrgangs eru að jafnaði endurunnin í hverju sveitarfélagi. Þjóðverjar eru sterkastir meðal þjóðanna þrjátíu í þessum flokki, en þar eru 68 prósent úrgangs endurunnin. Íslendingar standa sömuleiðis illa að vígi þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda, en þar eru þeir í næst neðsta sæti. Íslendingar losa 17,5 tonn gróðurhúsalofttegunda á ári miðað við höfðatölu. Til samanburðar losa Svíar, sem eru efstir á listanum, aðeins 5,4 tonn árlega.

Svíþjóð var einnig í efsta sæti listans í fyrra. Ísland var þá ekki á meðal þátttakenda. 

Röð Land Meðaltal sæta úr flokkum
1 Svíþjóð 3.3
2 Noregur 7.8
3 Ísland 9.0
4 Portúgal 9.5
5 Finnland 10.2
6 Austurríki 11.0
7 Krótatía 11.7
8 Slóvenía 12.3
8 Írland 12.3
10 Lettland 12.7
11 Litháen 13.3
12 Bretland 14.3
13 Eistland 14.5
13 Ítalía 14.5
15 Frakkland 16.2
16 Spánn 16.5
17 Danmörk 16.8
18 Rúmenía 17.3
19 Grikkland 17.5
20 Búlgaría 18.0
21 Þýskaland 18.3
22 Lúxemborg 19.5
23 Ungverjaland 19.7
24 Slóvakía 20.0
25 Holland 20.3
26 Kýpur 20.5
27 Malta 20.8
27 Belgía 20.8
29 Pólland 21.8
30 Tékkland 23.8