Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fundu annan leka undir brú El Grillo

22.07.2020 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæsla Íslands - RÚV
Umhverfisstofnun og Landhelgisgæslan meta nú næstu skref og mögulegar aðgerðir til að stöðva leka úr flaki El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar. Teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun segir lekann minni en undanfarin ár.

Hærri sjávarhiti getur orsakað aukinn leka

Þann 16. júlí fóru kafarar á vegum Landhelgisgæslunnar niður að flaki El Grillo sem liggur á botni Seyðisfjarðar. Í ljós kom að aðgerðir sem farið var í til að hefta olíuleka úr einum af tönkum skipsins í vor hafa virkað og er enginn leki er sjáanlegur frá þeim tanki. Hins vegar virðist sem farið sé að leka úr öðrum tanki sem staðsettur er undir brú skipsins.  Sjávarhiti er hár á þessum árstíma sem getur orsakað aukinn leka. Sigurrós Friðriksdóttir er teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun. 

Miklu minna en undanfarin ár

„Já það virðist vera, að minnsta kosti samkvæmt niðurstöðum köfunarinnar í vor og aðgerðarinnar núna í vor virtist þessi tankur ekki leka. En hann er að koma fram núna. Nú er náttúrlega sjávarhiti orðinn hár og það er yfirleitt þá sem að fer að bera á leka frá El Grillo," segir Sigurrós.

Er þetta mikill leki, í samanburði við það sem verið hefur áður?

„Nei þetta er ekki mikill leki og við höfum líka verið í samskiptum við Seyðisfjarðarhöfn út af þessum leka. Það er þeirra mat að þetta er miklu minna af olíu sem er að koma upp en hefur verið á undanförnum árum."