Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fráleitt að ekki sé tekið á framsali valds

„Nýtt stjórnarskrárfrumvarp forsætisráðherra er ekki róttækt en tillögurnar eru flestar til bóta,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði. Hann segir fráleitt og algerlega óviðunandi að ekki sé hróflað við 21. grein stjórnarskrárinnar um framsal valds.

„Það sem stendur uppúr að mínu mati er í fyrsta lagi ný ákvæði um þingrof sem staðfesta skilning Ólafs Ragnars á því, það er að segja að forseti hafi sjálfstætt vald til að synja tillögu forsætisráðherra um þingrof,“ sagði Ólafur í samtali við fréttastofu í dag. 

Í frumvarpinu er einnig lagt til að fjölga meðmælendum sem forsetaframbjóðendur þurfa að safna, úr 1500 manns eins og nú er, og hefur verið frá 1945, í 2,5 prósent kosningabærra, sem væru nú 6300 manns. Þá er lagt til að lengja kjörtímabil forseta í sex ár og að hann megi aðeins sitja í tvö kjörtímabil, eða alls tólf ár. 

Finnst þér þetta vera róttækar breytingar? „Þær eru kannski ekki róttækar en þær eru yfirleitt allar til bóta, þær skýra stjórnarskrána og þetta er sá kafli stjórnarskrárinnar sem lengst hefur verið óbreyttur.“

Er þetta málamiðlun? „Ég geri ráð fyrir því.“

Athygli vekur að ekki er hreyft við 21. grein stjórnarskrárinnar um samninga forsetans við önnur ríki.

„Það er í raun alveg fráleitt. Ísland er eina landið á Norðurlöndum sem ekki hefur ákvæði um með hvaða hætti heimilt er að framselja vald til alþjóðastofnana. Það er í raun óviðunandi í alþjóðasamskiptum nútímans og lengi hefur verið vafi á því hvort EES samningurinn standist í raun stjórnarskrána og það er í sjálfu sér óviðunandi.“