Fékk morðhótanir og börnin voru áreitt vegna starfsins

Mynd: Baltasar Breki / Baltasar Breki

Fékk morðhótanir og börnin voru áreitt vegna starfsins

22.07.2020 - 09:17

Höfundar

„Þetta bara vatt upp á sig. Fór að verða bara mjög persónulegar árásir í minn garð, morðhótanir, áreiti heima hjá mér, börnin mín voru áreitt. Þetta var bara orðið mjög slæmt," segir lögreglukonan Eyrún Eyþórsdóttir um það þegar hún stýrði verkefni gegn hatursáróðri hjá Lögreglunni.

Eyrún var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í þættium Segðu mér. Þar ræddi hún lögreglustarfið og sögur Íslendinga sem settust að í Brasilíu og eiga hug hennar allan. Eyrún er mannfræðingur og vinnur nú að doktorsritgerð í mannfræði. 

Skiptar skoðanir á verkefninu
Verkefnið sem Eyrún stýrði hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var þróunarverkefni varðandi hatursglæpi- og tjáningu. Mjög skiptar skoðanir voru a verkefninu. 
„Þetta var alveg mjög blandað. Auðvitað voru mjög margir sem lýstu ánægju sinni með þetta. Ég fékk mikið af símtölum, tölvupóstum og skilaboðum þar sem fólk var að lýsa yfir ánægju sinni með þetta, óska eftir samstarfi og annað slíkt. Svo voru líka ákveðnir einstaklingar í samfélaginu sem leist ekkert á þetta," segir Eyrún.

Hótanir og ofsóknir
Hún segir persónu sína hafa verið dregna mjög fljótlega inn í gagnrýni á verkefnið. Hún hafi mátt þola hótanir og ofsóknir vegna þess.  „Það fór strax í þann farveg að lögreglan væri farin að beita sér gegn tjáningarfrelsi fólks sem er ekki réttur skilningur á þessu starfi. Svo fór í einhverjar svona persónulegar árásir gagnvart mér. Það er eins og fólk skildi ekki það að ég var bara venjulegur starfsmaður lögreglunnar. Mér var falið þetta verkefni af mínum yfirmanni. Það voru ákveðnir aðilar út í bæ sem töldu jafnvel að mér hefði verið plantað þarna inn af Vinstri Grænum af því ég var aktív í Vinstri Grænum á tímabili. Gáfu sér að ég væri komin inn í lögregluna í einhverjum pólitískum tilgangi, til að klekkja á pólitískum andstæðingum. Fólk leyfði sér jafnvel að setja þetta fram opinberlega, í fjölmiðlum. Einn ákveðinn fjölmiðill fór mikið fram í svona, já bara rógburði gagnvart mér. Það voru dæmi um þingmenn sem fóru fram og fóru líka inn í þennan talsmáta. Að ég væri þarna á málum Vinstri Grænna að reyna klekkja á andstæðingum. Og af öllum þá hefði maður nú haldið að þingmenn vissu hvernig kerfið er uppbyggt og þeir hefðu nú átt að hafa skilning á því að almennur lögreglumaður hefur ekki vald til þess að setja af stað eða stýra verkefni án aðkomu yfirmanna," segir Eyrún.

Settu upp öryggiskerfi
Hún segir þó að lögreglan hafi gert sitt til að reyna vernda hana á heimili sínu. „Lögreglan setti upp öryggiskerfi heima hjá mér og annað slíkt. Þannig þau gerðu sitt í að reyna vernda mig. Niðrustaða mín var sú að þetta væri ekki eins manns verkefni og kannski hefði yfirstjórn lögreglunnar átt að stíga meira fram og eigna sér verkefnið, hlífa mér sem starfsmanni. Að ég væri ekki fyrir persónulegum árásum fyrir starf sem ég var beðin um að sinna. Ég var ósátt við að ég fengi ekki meiri vernd, að það væri ekki meira tekið utan um verkefnið og mér hlíft," segir Eyrún sem hætti hjá Lögreglunni og starfar nú sem lektor við lögregludeild Háskólans á Akureyri. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Eyrúnu í heild sinni hér og í öllum helstu hlaðvarpsveitum. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þráði alltaf að eignast fjölskyldu

Menningarefni

Fann ástina aftur eftir erfiðan skilnað

Heilbrigðismál

„Ég er hamingjusamur, glaður og frjáls“