Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enginn kemur til landsins vitandi að hann er sýktur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Dæmi eru um að fólk hafi þurft að dvelja allt að sex vikur í sóttvarnarhúsinu við Rauðarárstíg. Þetta sagði Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúsa í Morgunútvarpinu í morgun.

Hann segir veruna í sóttvarnarhúsinu reyna á þá sem þangað eru sendir í sóttkví eða einangrun. „Þetta eru lítil herbergi,“ segir Gylfi Þór, en kveður þá sem þangað koma engu að síður sýna málinu skilning. „Þannig að þetta er álag.“

25 manns dvelja nú í sóttvarnarhúsinu, þar af eru fimm með staðfest kórónuveirusmit.

Dæmi eru um að ferðamenn sem hingað komi þurfi að hætta við fyrirhugað ferðalag um Íslands og dvelja þess í stað í sóttvarnarhúsinu. „Fólk skilur þessa ráðstöfun og veit að þessi möguleiki er fyrir hendi þegar þau leggja af stað þó að þau voni að svo verði ekki,“ segir hann. „Það er enginn sem kemur til landsins vitandi að hann er sýktur af kórónuveirunni.“

Skammast sín fyrir að hafa hugsanlega smitað aðra

Smitskömmin reynist líka mörgum erfið. „Ef að það gerist að fólk er í stórum hóp og það þarf að einangra einhvern úr hópnum hjá okkur, þá þurfa hinir í hópnum að fara í sóttkví og það er oftast þá einhvers staðar annars staðar,“ útskýrir Gylfi Þór og útskýrir að oftast geti sá hópur verið áfram á sínum dvalarstað.

„Þannig að við erum þá kannski að rífa upp ferðahópa, en fólk skilur þetta. Það er leitt yfir því og líður illa og það er þessi smitskömm sem rætt hefur verið um. Fólk skammast sín fyrir að hafa hugsanlega smitað aðra.“

Þannig líði þeim einstaklingi ekkert vel á meðan að verið er að leita uppi þá sem hann  hefur verið í samskiptum við, vitandi að hann hafi mögulega smitað tugi eða jafnvel hundruð manna.

Erfitt að fá sjálfboðaliða út af sumarfríum

Enginn þeirra fimm sýktu sem dvelja í sóttvarnarhúsinu er mikið veikur, en starfsmenn sóttvarnarhússins fylgjast vel með líkamlegri og andlegri líðan þeirra sem þar dvelja.

Gylfi Þór segir starfsmenn þannig klæða sig reglulega í hlífðarfatnað til að gefa sig á tal við fólk og eins til að athuga hvort það vanti eitthvað. Sumir sem hingað koma eru að koma allslausir,“ segir hann og vísar til hælisleitenda sem dvelja í sóttvarnarhúsinu fyrstu dagana eftir komuna til landsins.

Starfsmenn sóttvarnarhússins eru sjö talsins, auk öryggisvarða frá Securitas og nokkurra hótelstarfsmanna. Þá njóta þeir líka aðstoðar frá sjálfboðaliðum Rauða krossins. „Þeir koma og hjálpa okkur stundum með matinn og svona,“ segir Gylfi Þór. „En það er reyndar svolítið erfitt núna að fá sjálfboðaliða út af sumarfríum.“

Gylfi Þór kveðst ekki hafa hugmynd um hversu lengi starfinu á Rauðarárstíg verði haldið úti, en sjálfur telji hann þau jafnan vera korteri frá því að loka.