Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Djúp undiralda á vinnumarkaði

22.07.2020 - 18:55
Fyrirætlanir Icelandair um að semja við annað stéttarfélag en Flugfreyjufélag Íslands voru aðför að stöðu verkalýðshreyfingarinnar, að mati prófessors í sagnfræði. Sérfræðingur í vinnumarkaðsfræði segir atburði síðustu daga gefa vísbendingar um djúpa og þunga undiröldu á vinnumarkaði. 

 

Þegar Icelandair tilkynnti á föstudag að kjaraviðræðum yrði slitið við Flugfreyjufélag Íslands og viðræður væru hafnar við annað stéttarfélag brást verkalýðshreyfingin ókvæða við. Álit hennar er að þetta stangist á við lög en Samtök atvinnulífsins eru ósammála. Þar sem samningar náðust í deilunni aðfaranótt sunnudags varð ekki úr boðaðri ráðstöfun Icelandair. En svona nokkuð hefur ekki gerst áður.

„Þetta er að vissu leyti aðför að stöðu verkalýðshreyfingarinnar á íslenskum vinnumarkaði og í sambandi við þessa yfirgnæfandi þátttöku fólks í þeim verkalýsðfélögum,“ segir Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Katrín Ólafsdóttir, lektor í viðskiptafræði við HR, segir ólguna þó ekki aðeins í kringum Icelandair. „Það sem vekur mann til umhugsunar er að í sömu vikunni gerast þessir atburðir með Herjólf þar sem annað skip kemur inn og tekur við starfsemi Herjólfs. Það orkar líka tvímælis.“

Katrín bendir einnig á að kjaraviðræður séu nú almennt harðari og taki lengri tíma. „Þannig að það eru ákveðnar vísbendingar um að það sé djúp og þung undiralda á vinnumarkaðnum.“

Guðmundur segir það flækja stöðuna hjá Icelandair að fyrirtækið sé eitt af fáum sem er fyrst og fremst í alþjóðlegri samkeppni. „Hér er hægt að kaupa flugmiða með flugfélögum á borð við EasyJet og Wizz Air, og þau eru ekki háð íslenskum launakröfum, þannig að það er augljóst að Icelandair þarf að horfa til þessa.“

Á hinn bóginn er hvergi hærra hlutfall launafólks í verkalýðsfélögum en hér á landi. „Ef við viljum halda því kerfi sem við höfum með tiltölulega miklum jöfnuð og tiltölulega öflugakerfi þar sem launafólk getur haft áhrif á við hvaða aðstæður það býr þá held ég að við verðum að huga að framtíðinni,“ segir Guðmundur.

Katrín segir vinnumarkaðskerfið vera að ganga sér til húðar, til að mynda með hinu gamalkunna höfrungahlaupi í launum. „Hvaða merki þetta eru er erfitt að segja á þessari stundu en það virðist vera eitthvað undir niðri sem er að gerast. Það kæmi mér ekki á óvart að það yrðu væringar framundan næstu mánuði.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV