Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Burger King má grilla grænmetisborgara með kjötinu

22.07.2020 - 13:10
epa01424805 An image showing the company logo of Burger King, Frankfurt, Germany, 24 July 2008.  EPA/MAURITZ ANTIN
 Mynd: EPA
Dómstóll í Bandaríkjunum hefur vísað frá hópmálsókn gegn skyndibitakeðjunni Burger King frá dómstólnum. Sjö manns höfðuðu mál gegn Burger King og sökuðu fyrirtækið um svik fyrir að grilla grænmetisborgara sína á sama grilli og borgara úr kjöti.

Dómarinn Raag Singhal við dómstóllinn í Fort Lauderdale í Flórída segir sjömenningana ekki hafa spurt út í framreiðslumáta skyndibitakeðjunnar, né heldur hafi þeir beðið um að fá grænmetisborgarann matreiddan á þann máta sem mataræði þeirra gerði kröfur um.

Þá benti dómarinn á að hvergi í auglýsingum Burger King væri tiltekið að grænmetisborgararnir væru matreiddir sér.

„Burger King lofaði kjötlausum borgara og stóð við það,“ segir í úrskurðinum.

Grænmetisborgarinn sem nefnist Impossible Whopper er tilbrigði við Whopper borgara skyndibitakeðjunnar. Fyrirtækið Impossible Foods sem þróaði borgarann með Burger King segir hann ætlaðan kjötætum sem vilja minnka neyslu sína á dýrapróteini. Hann sé ekki hannaður fyrir grænmetisætur eða þá sem eru vegan.

„Fyrir þá sem eru vegan er í boði örbylgjusteiking sem þeim er velkomið að biðja um,“ hefur Reuters fréttaveitan eftir Dana Worth sölustjóra Impossible Foods.