
Biden leiðir með átta prósentustigum í nýrri könnun
46 prósent skráðra kjósenda segjast ætla að kjósa Biden í forsetakosningum í Bandaríkjunum þann 3. nóvember næstkomandi og 38 prósent styðja Donald Trump. 16 prósent hafa ekki ákveðið sig, ætla ekki að kjósa eða segjast styðja frambjóðanda utan flokka.
Óákveðnir hallast að Biden
61 prósent þeirra sem ekki hafa ákveðið sig segjast myndu kjósa Biden ef þeir þyrftu að velja, og 39 prósent myndu kjósa Trump. Reuters og Ipsos könnuðu fylgi Donalds Trump og Hillary Clinton á sama tíma í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016. Þá skiptist val þeirra sem ekki höfðu ákveðið sig jafnt milli frambjóðendanna, en Trump fékk svo meirihluta atkvæða þeirra sem tóku ákvörðun í síðustu vikunni fyrir kosningar.
Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að 80 prósent þjóðarinnar óttast útbreiðslu COVID-19 faraldursins og aðeins 38 prósent þjóðarinnar eru ánægð með viðbrögð Trumps við útbreiðslu veirunnar.
Á vef RealClearPolitics sem tekur saman niðurstöður allra kannana um fylgi þeirra Bidens og Trumps má sjá að forskot varaforsetans fyrrverandi tók að aukast í byrjun maí og mælist nú 8,6 prósentustig.
Fylgiskönnunin var gerð á netinu dagana 15.-21. júlí og 4.430 Bandaríkjamenn tóku þátt.