Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Biden leiðir með átta prósentustigum í nýrri könnun

epa08290130 Democratic candidate Joe Biden speaks about the coronavirus at the Hotel Du Pont in Wilmington, Delaware, USA on 12 March 2020. The U.S. has topped 1,000 confirmed cases of coronavirus.  EPA-EFE/TRACIE VAN AUKEN
Joe Biden. Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins og fyrrverandi varaforseti, hefur átta prósentustiga forskot gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta meðal skráðra kjósenda, samkvæmt nýrri fylgiskönnun Reuters og Ipsos. Biden virðist einnig standa betur að vígi meðal þeirra sem eiga eftir að ákveða sig. Reuters greinir frá.

46 prósent skráðra kjósenda segjast ætla að kjósa Biden í forsetakosningum í Bandaríkjunum þann 3. nóvember næstkomandi og 38 prósent styðja Donald Trump. 16 prósent hafa ekki ákveðið sig, ætla ekki að kjósa eða segjast styðja frambjóðanda utan flokka.

Óákveðnir hallast að Biden

61 prósent þeirra sem ekki hafa ákveðið sig segjast myndu kjósa Biden ef þeir þyrftu að velja, og 39 prósent myndu kjósa Trump. Reuters og Ipsos könnuðu fylgi Donalds Trump og Hillary Clinton á sama tíma í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016. Þá skiptist val þeirra sem ekki höfðu ákveðið sig jafnt milli frambjóðendanna, en Trump fékk svo meirihluta atkvæða þeirra sem tóku ákvörðun í síðustu vikunni fyrir kosningar. 

Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að 80 prósent þjóðarinnar óttast útbreiðslu COVID-19 faraldursins og aðeins 38 prósent þjóðarinnar eru ánægð með viðbrögð Trumps við útbreiðslu veirunnar. 

Á vef RealClearPolitics sem tekur saman niðurstöður allra kannana um fylgi þeirra Bidens og Trumps má sjá að forskot varaforsetans fyrrverandi tók að aukast í byrjun maí og mælist nú 8,6 prósentustig. 

Fylgiskönnunin var gerð á netinu dagana 15.-21. júlí og 4.430 Bandaríkjamenn tóku þátt.