
Átta fyrirtæki hafa fengið stuðningslán en 367 sótt um
Stuðningslán voru kynnt sem hluti af öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til að stemma stigu við efnahagslegum áhrifum COVID-19 á Íslandi. Þau eru veitt samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti þann 13. maí síðastliðinn. Landsbankinn, Arion banki, Íslandsbanki og Kvika sjá um að veita lánin, samkvæmt samningi við Seðlabanka Íslands.
Lánunum er ætlað að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki sem glíma við fjárhagserfiðleika vegna áhrifa COVID-19 faraldursins. Lánin nema að hámarki 40 milljónum króna til hvers fyrirtækis og ríkið ábyrgist lánið að fullu upp í 10 milljónir, og 85% ríkisábyrgð er á lánsupphæðum umfram 10 milljónir.
Fyrirtæki þurfa að uppfylla ýmis skilyrði til að eiga kost á lánunum. Til dæmis þurfa tekjur þeirra að hafa lækkað um 40 prósent yfir tiltekið tímabil samanborið við síðasta ár. Þau mega ekki hafa staðið í vanskilum við lánastofnanir lengur en í tíu daga og ekki vera í vanskilum með opinber gjöld sem komin voru á eindaga fyrir lok síðasta árs.