Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áfall að vera of þungur til að fara í magaermisaðgerð

Tómas Þór Þórðarson formaður Samtaka íþróttafréttamanna. - Mynd: Tómas Þór Þórðarson, forma / Tómas Þór Þórðarson, forma

Áfall að vera of þungur til að fara í magaermisaðgerð

22.07.2020 - 13:25
„Þessi feluleikur var svo mikill. Það var lýjandi,” segir Tómas Þór Þórðarson, íþróttafréttamaður. Tómas var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1. Tómas fór árið 2015 í svokallaða magaermisaðgerð eftir að hafa barist við offitu í mörg ár. 

„Það var sum sé 2014 sem ég náði ákveðnum botni í mínu lífi en í raun og veru náði líka ákveðnum toppi, en mjög vondum toppi. Þessi ofþyngd mín var farin að hafa gríðarleg áhrif á daglegt líf. Þetta stefndi í einhvern svona bandarískan raunveruleikaþátt. Þannig séð. Sagt í smá gríni en í raun og veru alvöru líka,” segir Tómas. Þyngdin háði honum í öllu hans daglega lífi sem og í vinnu. 

„Ég er íþróttafréttamaður og ekkert sem ég geri meira af en að fara á kappleiki og þá sérstaklega knattspyrnuleiki. Þeir voru ekki margir sem ég fór á sumarið 2014 eiginlega bara vegna þess að ég treysti mér ekki út úr húsi. Ég gat ekki gengið meira en svona 50-60 metra án þess að vera gjörsamlega farinn í baki og löppum og bara kófsveittur,” segir Tómas.

Í mars 2014 fór Tómas á fund læknis til að athuga hvort hann gæti farið í svokallaða magaermisaðgerð en hann fékk hins vegar neitun hjá lækninum þar sem hann var of þungur til þess að hægt væri að framkvæma á honum aðgerðina. 

„Þá endanlega missti ég alla trú á framtíð minni þegar kom í ljós að ég var of þungur til þess að fara í aðgerð til að berjast við ofþyngd. Það var gríðarlegt áfall,” segir Tómas. Það var ekki hægt að framkvæma hana. Það var ekki til skurðarborð sem héldi mér og bara hættulegt að framkvæma hana á svona rosalega stórum manni."

Tómas ákvað þá taka þátt í Meistaramánuði sem þá var í gangi en hans átak teygði sig yfir í meistaraár. Þar losaði hann sig við alla óhollustu og fann strax mikinn mun á sér sem skilaði sér í því að rúmu ári síðar fékk hann jákvætt svar frá lækninum um að fara í aðgerðina.

Síðan þá hefur Tómas misst 125 kíló og líf hans hefur gjörbreyst. Hann segir þetta þó ekki vera svo einfalt að þú farir bara í aðgerð og kílóin renni af þér. Þetta sé mikið inngrip sem hafi áhrif á allt þitt líf. Og svo er það andlegi hlutinn. Í þrjátíu ár hefur hafði hann verið alltof þungur og sjálfsmynd hans mótast af því.

„Þú getur rétt ímyndað þér, þegar þér er búið að finnast þú vera skotspónn baktals og bara stríðni, ekki vera samþykktur. Vera í feluleikjum. Þetta tekur svo mikið á sálina. Þú ert í þessu í þrjátíu ár. Þú þarft líka að vinda ofan af andlega þættinum og huganum á þér,“ segir Tómas sem er byrjaður að vinna í andlegu hliðinni. „Ég er núna kominn til sálfræðings sem ég hefði átt að gera fyrir löngu.“

Frá því að Tómas hóf nýtt líf, eins og hann orðar það sjálfur, hefur margt breyst hjá honum. Hann fékk kjarkinn til þess að byrja að starfa fyrir framan skjáinn eins og hann hafði dreymt um eftir að hafa starfað lengi sem íþróttafréttamaður. Hann hefur nú stýrt þremur sjónvarpsþáttum og stýrir nú umfjöllun um Enska boltann hjá Símanum. Hann hafi auk þess fundið ástina, byrjað að ferðast og lifa lífinu. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Tómas í heild sinni hér og í öllum helstu streymisveitum. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Fékk morðhótanir og börnin voru áreitt vegna starfsins

Menningarefni

Þráði alltaf að eignast fjölskyldu

Myndlist

„Að vera barin niður er það besta sem kom fyrir mig“