400 lík sótt á heimili og götur stórborga Bólivíu

22.07.2020 - 04:54
epa08552185 A new cemetery is constructed for those killed by COVID-19 in Santa Cruz, Bolivia, 16 July 2020 (issued 17 July 2020). The overcrowding of the municipal cemetery, which was established in the Bolivian city of Santa Cruz, the city most affected by COVID-19, to bury those who died of this disease, forced the city administration to create a second cemetery and prepare a third one for future burials.  EPA-EFE/Juan Carlos Torrejon
Nýr kirkjugarður var tekinn í notkun í Santa Cruz, stærstu borg Bólivíu, vegna fjölda dauðsfalla af völdum COVID-19 í borginni. Santa Cruz er sú bólivíska borg sem hefur farið verst út úr farsóttinni til þessa, en nú er þunginn að færast yfir á La Paz og Cochabamba Mynd: EPA-EFE - EFE
Bólivísk lögregluyfirvöld tilkynntu í gær að lögreglulið landsins hefði fjarlægt yfir 400 lík af götum og heimilum landsmanna dagana 15. - 20. júlí, flest þeirra í þremur stórborgum. Talið er að 85 prósent hinna látnu hafi dáið úr COVID-19. Lögregla í fjallaborginni Cochabamba flutti 191 lík í líkhús borgarinnar á þessum fimm dögum og 141 lík var sótt af lögreglunni í höfuðborginni La Paz á sama tíma.

 

Í Santa Cruz, fjölmennustu borg Bólivíu, sótti lögregla 68 lík sem, eins og í hinum borgunum tveimur, ýmist voru enn inni á heimilum hinna látnu eða höfðu verið lögð til þar utan dyra, á gangstétt eða götu. Ivan Rochas, ríkislögreglustjóri, greindi frá þessu á fréttamannafundi í gær.

Rochas sagði að um 85 prósent hinna látnu hefðu ýmist verið greind með COVID-19 eða sýnt sjúkdómseinkenni á banalegunni, sem bentu eindregið til þess að farsóttin hefði orðið þeim að aldurtila. Hin 15 prósentin, sagði ríkislögreglustjórinn, „dóu af öðrum orsökum, það er að segja úr öðrum sjúkdómum eða vegna ofbeldisverka.“

Nær 2.300 dauðsföll rakin til COVID-19, grunur er um að þau séu mun fleiri

AFP-fréttastofan hefur eftir sóttvarnaryfirvöldum að farsóttin sé nú í örum vexti í Cochabamba og La Paz. Í Santa Cruz, þar sem sóttin hefur geisað hvað heitast, fer nýsmitum hins vegar fækkandi.

Staðfest smit í Bólivíu eru rúmlega 62.000 og dauðsföllin tæplega 2.300. Talið er nær öruggt að hvort tveggja smit og dauðsföll séu umtalsvert fleiri. Andres Flores, yfirmaður meinafræðirannsóknastofnunar Bólivíu, sagði frá því á dögunum að yfir 3.000 lík sem sótt voru út fyrir sjúkrahús landsins frá 1. apríl til 19. júlí hefðu ýmist verið staðfest eða skráð sem líkleg COVID-19 tilfelli. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi