Þúsundum hótela og veitingastaða lokað

21.07.2020 - 16:11
epa08458266 A group of people chat have lunch at a restaurant in Valencia, Spain, 01 June 2020, where panels have been placed for safety measures as the region starts Phase 2 of the government's plan to gradually ease the lockdown measures implemented in a bid to slow down the spread of the pandemic COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus. Restaurants and bars are allowed to open their indoor hall to clients.  EPA-EFE/Biel Aliño
Fámennt var á þessum veitingastað í Valencia í byrjun síðasta mánaðar. Mynd: EPA-EFE - EFE
Vegna kórónuveirufaraldursins hefur um 40.000 hótelum og veitingastöðum verið lokað til frambúðar á Spáni eða um þrettán prósent fyrirtækja í slíkum rekstri. Þetta segir José Luis Izuel, forstöðumaður Hosteleria de Espana, samtaka fyrirtækja í hótel- og veitingageiranum á Spáni. 

Izuel ræddi við fréttamenn í dag og sagði að búist væri við að þessi tala yrði komin í 65.000 fyrir árslok eða um tuttugu prósent. Þrátt fyrir að búið væri að opna landamæri væru ferðamenn afar fáir á vinsælum ferðamannastöðum og þar sem margir í stærri borgum ynnu heima bitnaði það á veitingarekstri.

Til dæmis hefði innan við helmingur veitingastaða á Balear-eyjum verið opnaður eftir að takmörkunum var aflétt. Heildarvelta hótela og veitingastaða kunni að minnka um allt að helming og ríflega milljón manns kunni að missa vinnuna.

Í síðasta mánuði kynnti spænska stjórnin aðgerðaáætlun til stuðnings fyrirtækjum í ferðaþjónustu upp á 4,2 milljarða evra, jafnvirði um 670 milljarða króna, sem einkum fólu í sér lánafyrirgreiðslur, en forsvarsmenn í ferðaþjónustu segja frekari aðgerða þörf.

Í nótt náðu leiðtogar Evrópusambandsríkja samkomulagi um að verja 750 milljörðum evra til stuðnings aðildarríkjum sem hefðu orðið illa úti vegna farsóttarinnar. Þar af verða 390 milljarðar evra veittir sem styrkir, en 360 milljarða evra í hagstæðum lánum. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi